Slepptu mér aldrei - Kazuo Ishiguro

Mynd: EPA / EPA

Slepptu mér aldrei - Kazuo Ishiguro

08.05.2020 - 15:44

Höfundar

Bók vikunnar er Slepptu mér aldrei eftir nýjan handhafa Bókmenntaverðlauna Nóbels, Kazuo Ishiguro, sem kom út í íslenskri þýðingur Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur árið 2005. .

Slepptu mér aldrei er dystópísk vísindaskáldsaga en líka svo ótal margt annað eins og viðtökur bókarinnar  á sínum tíma vitnuðu um. Allar bækur eftir Kazuo Ishiguro hafa verið þýddar á íslensku utan sú fyrsta og sú síðasta.

Ungt fólk sem á sér enga framtíð

Slepptu mér aldrei var sjötta skáldsagan sem Kazuo Ishiguro sendi frá sér. Bókin var tilnefnd til Man Booker verðlaunanna  sem og fleiri verðlauna. Tímaritið Time sagði bókina þá bestu árið 2005 og valdi hana jafnframt sem eina af 100 bestu bókum sem hefðu verið skrifaðar á ensku á árabilinu 1923 – 2005.

Margir gefa lítið fyrir skilgreininguna vísindaskáldsaga í tengslum við Slepptu mér aldrei og sjálfur segir höfundurinn sig ekki hafa áhuga á klónun eða öðrum vísindum. Þetta sé  saga um ungt fólk sem eigi sér enga framtíð. Mörgum þykir sagan sorgleg vegna þess að söguhetjunum er ætlað að deyja svo ungum en hver er munurinn á lengra lífi og skemmra ef tímin nýtist við að skapa eitthvað verðmætt, sambönd, vináttu eitthvað sem þrátt fyrir allt endist ekki að eilífu.

Stórglæpur gagnvart manneskjunni

Elísa Björg Þorsteinsdóttir segir að Slepptu mér aldrei sé hrollvekja en líka megi líta á hana sem glæpasögu þar sem ekki er á ferðinni einfalt morð sem skal upplýst heldur stórglæpur gagnvart manneskjunni. Bókin er þó líka saga um ást og vináttu og mikilvægi listsköpunar.

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar að þessu sinni er Auður Aðalsteinsdóttir og gestir hennar verða Bergrún Andradóttir bókmenntafræðingur og Brynhildur Björnsdóttir blaðamaður og rithöfundur. Hér má heyra þýðandann Elísu Björgu Þorsteinsdóttur lesa upphaf bókarinnar sem og brot framarlega úr þriðja hluta bókarinnar. Á milli má svo heyra viðtal við Elísu um bókina.

Mynd: Bjartur / Bjartur