Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samkomubann kærkomin hvíld fyrir suma

08.05.2020 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Formaður félags skólasálfræðinga segir að samkomubann og skert skólastarf hafi jafnvel verið kærkomin hvíld fyrir ákveðinn hóp nemenda. Vandi þeirra barna sem stóðu höllum fæti fyrir geti hins vegar verið meiri nú.

Nú er tæp vika síðan almennt skólastarf hófst aftur í leik- og grunnskólum. Álfheiður Guðmundsdóttir, formaður félags skólasálfræðinga, segir að langflest börn séu mjög ánægð með að mæta aftur í skólann og rútínan sé kærkomin.

Vandi barna sem stóðu höllum fæti er jafnvel meiri

Við fyrstu sýn hafi ástandið ekki breytt miklu hjá þeim nemendum sem stóðu vel fyrir en vandi barna sem stóðu höllum fæti eða glímdu við vanda fyrir skert skólastarf gæti hafa aukist. Sérstaklega hjá börnum sem hafa ekki gott bakland og hafa ekki fengið þann stuðning sem þau þurfa á að halda.

Hvíld kærkomin fyrir upptekna unglinga

Samkomubann hafi hins vegar hentað sumum vel, til að mynda unglingum sem gátu hafið daginn seinna og unnið lengur. Þá hafi skert skólastarf og hvíld mögulega verið kærkomin fyrir ákveðinn hóp nemenda.

„Við sjáum að sumir krakkar sem voru í mjög miklu skipulagi, þá eldri krakkar helst, og upp í framhaldsskóla. Þau voru jafnvel í tímafrekum tómstundum og vinnu með skóla. Svo féll þetta allt niður og þá skapaðist svigrúm til að gera aðra hluti sem þau gerðu ekki áður, huga betur að sjálfum sér eða hvíla sig jafnvel. því sumir krakkar eru í ansi miklu prógrammi,“ segir Álfheiður.

Vandinn gæti komið í ljós síðar

Álfheiður á ekki von á því að starf skólasálfræðinga breytist mikið vegna samkomubannsins en það geti verið erfitt að segja til um áhrif þess strax. Eins og þekkt sé komi áhrif eftir áföll og hamfaratíma ekki í ljós strax. Ýmis vandi geti komið fram seinna, við séum bara á byrjunarreit í að koma öllu í fastar skorður aftur.