Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólöglegt að afhomma ungmenni í Þýskalandi

08.05.2020 - 06:35
epa08407312 German Health Minister Jens Spahn stands behind a sign asking for 1.5 meters distance keeping, as he gives a press statement during a session at the German parliament Bundestag in Berlin, Germany, 07 May 2020. The Bundestag voted on various agenda items. Members of Parliament have to keep distance while queueing up amid the ongoing the SARS-CoV-2 coronavirus pandemic which causes the Covid-19 disease. The election of a new military commissioner and an AfD Vice President are on the agenda.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýska þingið samþykkti í gær lög sem banna svokallaðar afhommunarmeðferðir á yngri en 18 ára. Svoleiðis meðferðir eru sagðar geta breytt kynhneigð einstaklinga. Þeir sem komast í kast við nýju lögin geta átt von á allt að eins árs fangelsi eða 30 þúsund evra sekt, jafnvirði um fimm milljóna króna. 

Samkvæmt lögunum mega börn og ungmenni ekki gangast undir aðgerðir sem eru gerðar í því skyni að reyna að breyta eða bæla kynhneigð eða kyngervi þeirra. Meðal þess sem er gert í slíkum meðferðum er að beita rafstuði og dáleiðslu, segir á vef BBC. Sérfræðingar segja hins vegar að það sé rangnefni að kalla þetta meðferð, þar sem engin vísindaleg rök séu að baki aðgerðanna. Rannsóknir benda til þess að afhommunarmeðferðir geti haft alvarleg áhrif á einstaklinga. Þær geta leitt til þunglyndis og aukið hættuna á á einstaklingar fremji sjálfsmorð.

Heilbrigðisráðherrann Jens Spahn segir ítarleg lög hafa verið nauðsynleg til þess að forðast kærumál. Þá benti hann á að flestir þeirra sem hafa verið sendir í slíkar meðferðir hafi verið ungmenni sem voru neydd til þess af öðrum. Spahn kynnti fyrstu áætlanir um lög af þessu tagi í júní í fyrra, og frumvarpið var klárt í nóvember. 

Lögin ná bæði til þeirra einstaklinga og stofnana sem bjóða þessar meðferðir, auk foreldra og forsjáraðila sem senda barnið sitt í slíka meðferð með blekkingum, valdi eða hótunum. Samkvæmt mannréttindasamtökunum Magnus Hirshfeld Foundation í Berlín er talið að um þúsund manns gangist undir slíka meðferð í Þýskalandi á hverju ári.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV