„Eyðilagði fyrstu æfinguna“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Eyðilagði fyrstu æfinguna“

08.05.2020 - 09:52
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í Pepsi Max deild karla í fótbolta, segir það hafa verið mikinn létti að fá loksins leikjaplan fyrir sumarið. Hann hafi þó náð að skemma þá góðu stemningu sem var í leikmannahópnum.

 

„Maður fann alveg að það var aðeins öðruvísi stemning á æfingunni í dag. Ég reyndar eyðilagði hana með því að tilkynna að það væri fitnesstest líka,“ sagði Arnar í viðtali við Orra Frey Rúnarsson í Sportrásinni á Rás 2 í gærkvöldi.

Víkingur mætir Fjölni í fyrstu umferð sunnudaginn 14. júní. Arnar segir það gaman að fá nýliða í fyrsta leik á sínum heimavelli enda sé oft mikið fjör í nýliðum í fyrsta leik sumarsins.

„Tímabilið farið í að lesa Hemingway“

 

Undirbúningstímabil fótboltaliða þetta árið hefur verið undarlegt. Leikmenn hafa mikið æft einir og ekki getað verið mikið með bolta. Arnar segist hafa fagnað því í fyrra að fá langt undirbúningstímabil enda með marga nýja leikmenn í liðinu. Í ár sé staðan allt önnur og meira verið að skerpa á hlutum sem voru settir af stað í fyrra.

„Ef við tölum um að tímabilið í fyrra hafi farið í að læra stafrófið, þá hefur tímabilið núna farið í að lesa Hemingway. Komnir aðeins flóknari hlutir,“ segir Arnar.

Líkamlegi þátturinn hafi þó verið erfiðari og það sé ágætt fyrir fólk að vita að líkamlegi þáttur leikmanna er ekki eins og hann væri ef allt væri eðlilegt.

„Við tókum fitnesstest áðan og menn eru alveg 10, 15, 20% undir því sem þeir voru áður en Covid-19 kom, fyrir sjö, átta vikum. Þannig að það verður að sýna smá þolinmæði fyrstu tvo, þrjá leikina að menn séu aðeins lengi að komast í gagn. Það er af eðlilegum ástæðum.“

„Þú getur hlaupið í tvo daga samfleytt, hlaupa beint og þess háttar, og reynt að gera eins vel og hægt er í þeim efnum. En fótbolti, og aðrar íþróttagreinar, snýst svo mikið um litlu hreyfingarnar, litlu hliðarhreyfingarnar sem reyna á litlu vöðvana sem enginn veit hvað heita. Um leið og þú kemst í ákveðinn bolta… við reyndum að byrja rólega í þessari viku en strax eftir fyrstu tvær æfingarnar fóru menn að kveinka sér. Þetta er bara eðlilegt. Það tekur bara tíma fyrir líkamann að komast í gang aftur.“

„Ég veit að menn verða fljótir að ná sér aftur í sama form [og fyrir Covid-19]. Það er bara ekkert hægt að ætlast til þess að deildin byrji í fljúgandi gír í fyrstu leikjum þó ég viti að þeir leikir verði skemmtilegir,“ segir Arnar Gunnlaugsson.

Viðtalið við Arnar má hlusta á í heild sinni í spilaranum að ofan.