Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pell vissi af barnaníði á áttunda áratugnum

epa05170367 (FILE) A file photograph showing eighth Roman Catholic Archbishop of Sydney, Cardinal George Pell attending a Mass of Thanksgiving, in Sydney, Australia, 27 March 2014. Reports on 18 February 2016 state that Cardinal Pell says he is keen to
 Mynd: EPA - AAP FILE
Ástralski kardinálinn George Pell vissi af kynferðisofbeldi gegn börnum innan kaþólsku kirkjunnar þegar á áttunda áratug síðustu aldar. Pell var sjálfur sýknaður af barnaníði í síðasta mánuði.

Kaflar um Pell í opinberri skýrslu rannsóknarnefndar Ástralíustjórnar um barnaníð innan kaþólsku kirkjunnar voru nýverið birtir. Skýrslan var fyrst birt árið 2017, en kaflarnir um Pell voru fjarlægðir svo kviðdómur í máli hans gætu haldið hlutleysi sínu. Eftir að Pell var sýknaður var hægt að birta kaflana.

Samkvæmt skýrslunni var hann farinn að hafa áhyggjur af hegðun prestsins Gerald Ridsdale árið 1973. Ridsdale, sem nú situr inni fyrir barnaníð gegn 65 börnum, var þá byrjaður að taka drengi með sér í útilegur yfir nótt. Pell var á þessum tíma prestur í Ballarat umdæminum í Viktoríufylki. Þeir Ridsdale bjuggu saman, og studdi Pell hann við fyrstu réttarhöldin yfir Ridsdale árið 1993, að sögn AFP fréttastofunnar. 

Vék presti frá nærri áratug eftir fyrstu ásakanir

Eins komst nefndin að því að Pell hafi ákveðið að láta hjá líða að vísa prestinum Peter Searson úr embætti þegar hann var aðstoðarbiskup í Melbourne árið 1989. Þá fékk hann kvörtunarlista frá kennurum vegna brota Searsons. Fjöldi tilkynninga barst vegna brota hans í starfi yfir tveggja áratuga tíma. Þeirra á meðal voru barnaníð og óviðurkvæmileg og ofbeldisfull hegðun. Pell gerði ekkert í máli Searsons fyrr en árið 1997 þegar hann vék honum frá störfum. Searson viðurkenndi þá að hafa beitt barn líkamlegu ofbeldi, en hann var aldrei kærður fyrir kynferðisofbeldi.

Pell var erkibiskup af Sydney þegar rannsóknarnefndin var sett á laggirnar árið 2012. Þá sagði hann fjölda kynferðisbrota innan kaþólsku kirkjunnar ýktan. Alls bárust nefndinni sögur af yfir fjögur þúsund fórnarlömbum barnaníðs í trúarstofnunum. Yfir 15 prósent presta í sumum kaþólskum umdæmum voru gerendur í slíkum málum. 

Pell varði yfir ári á bak við lás og slá eftir að hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur kórdrengjum á tíunda áratugnum. Þá var hann erkibiskup af Melbourne. Hæstiréttur sýknaði hann í apríl.