Með sænsku leiðinni hefðu allt að 70 getað látist

07.05.2020 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hefðu íslensk stjórnvöld farið sömu leið og Svíar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hefðu dauðsföll getað orðið allt að 70 hér á landi. Það hefði orðið gríðarlegt högg fyrir heilbrigðiskerfið, yfirfyllt gjörgæsludeildir og haft mikil áhrif á aðra sjúklingahópa.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali í Læknablaðinu í dag. Hann bendir þar á að löndin í kringum okkur hafi farið misjafnlega út úr faraldrinum.

„Dánartíðni af völdum COVID-19 er sjö sinnum meiri í Svíþjóð miðað við höfðatölu en hér,“ segir hann. 

Með sambærilega dánartíðni hefðu andlát af völdum COVID-19 orðið um 70 hér á landi. Það hefði haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfið og aðra sjúklingahópa. Tíu hafa látist hér á landi af völdum veirunnar. 

Dauðsföll í Svíþjóð af völdum COVID-19 eru margfalt fleiri en í grannlöndunum, þrefalt fleiri en í Danmörku miðað við mannfjölda, sexfalt fleiri en í Noregi og Finnlandi og áttfalt fleiri en á Íslandi. Sænsk stjórnvöld hafa ekki gripið til jafn viðamikilla samkomutakmarkana eða lokana vegna faraldursins og nágrannalöndin en Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, hefur sagt að Svíar væru með því að reyna að ná hjarðónæmi fyrir veirunni. 

Þórólfur segir að Svíar hafi hugsanlega ekki verið nógu vel undirbúnir fyrir faraldurinn. Ekki hafi verið til nóg af hlífðarfatnaði og heilbrigðisstarfsfólk hafi til dæmis veikst og dáið. Það sé mikilsvert að bíða og fá tíma til að sjá hvort það koma lausnir sem hjálpa.

„Það verður erfitt fyrir Svía, og þær þjóðir sem hafa lent illa í þessu, ef það kæmi bóluefni og þeir kannski búnir að fórna svona miklu til að réttlæta af hverju þeir gerðu þetta ekki öðruvísi.”

Vill fá nýtt sjúkrahús

Þórólfur segir einnig að COVID-19-göngudeildin hafi skipt sköpum fyrir þá sem greindust. Þar fengu þeir góða þjónustu sem hefði vart verið betri á nýju sjúkrahúsi. Aftur á móti sé þörf á nýju sjúkrahúsi og betri aðstöðu.

„Þá þurfa menn ekki að kollvarpa þeirri starfsemi sem er fyrir til að geta sinnt svona löguðu.” 

Hann segist jafnframt stoltur af árangrinum sem hefur náðst í baráttunni við COVID-19 hér á landi. Það sé fyrst og fremst almenningi að þakka hve vel hefur gengið. Sú nálgun sem farið var eftir hér hafi virkað mjög vel. Heilbrigðiskerfið og samfélagið hafi staðist prófið. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi