Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin formleg aðgerðaáætlun um fjárhagsvanda Sorpu

07.05.2020 - 17:54
Innlent · Borgarráð · GAJA · Sorpa
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Engin formleg áætlun hefur verið lögð fram til lausnar á fjárhagsvanda Sorpu. Þetta segir starfandi framkvæmdastjóri félagsins. Stjórn Sorpu bókaði aftur á móti á fundi sínum að lögð hefði verið fram tillaga að slíkri áætlun og mat lagt á hana.

Fjárhagsvandræði Sorpu hafa verið mikið til umfjöllunar undanfarið en þau eru helst tilkomin vegna framúrkeyrslu við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA á Álfsnesi. Bara á þessu ári hefur Sorpa tekið tvö neyðarlán upp á næstum einn og hálfan milljarð króna og stendur afar illa fjárhagslega. 

Í fundargerð borgarráðs 30. apríl lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun vegna fundargerðar stjórnar Sorpu. Þar segir að tillaga fjármálateymis að aðgerðaáætlun vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Sorpu hafi verið kynnt. Jafnframt að mat hafi verið lagt á áætlunina. Áætlunin fylgi aftur á móti ekki fundargerðinni. 

„Það er mikilvægt að borgarráð sé upplýst um hvaða fyrirætlanir séu í bígerð og hvaða aðkomu Reykjavíkurborg á að hafa að þessari fjárhagslegu endurskipulagningu eða hvort gjaldskrár þurfi að hækka vegna framúrkeyrslu vegna GAJA, gas- og jarðgerðarstöðvarinnar,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna vegna málsins.

Fréttastofa óskaði eftir áætluninni en samkvæmt skriflegu svari Helga Þórs Ingasonar, starfandi framvæmdastjóra fyrirtækisins, hefur engin slík áætlun verið lögð fram. Helgi segir að málin séu í vinnslu innan Sorpu og almennar vinnuhugmyndir hafi verið ræddar á vettvangi stjórnar og eigenda en COVID-19 hafi meðal annars sett stórt strik í reikninginn í þeirri vinnu. Forsendurnar séu gerbreyttar miðað við það ástand sem var þegar hann var ráðinn tímabundið til Sorpu um miðjan febrúar. Þó að engin formleg aðgerðaáætlun sé til séu vinnuhópar á fullu að leita lausna á fjárhagsvandræðum fyrirtækisins.