Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ráðast á Írani á meðan þeir eru í Sýrlandi

06.05.2020 - 06:30
epa08398814 A view of a graffiti painted on damaged building amid the ongoing pandemic of the Covid-19 disease, in Idlib, Syria, 23 April 2020 (issued 03 May 2020). Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/YAHYA NEMAH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsher ætlar að halda aðgerðum áfram í Sýrlandi þangað til Íranir koma sér þaðan. Naftali Bennett, varnarmálaráðherra Ísraels, lýsti þessu yfir í gær eftir að árásir Ísraelshers urðu fjórtán vígamönnum sem njóta stuðnings frá Íran að bana. 

Árásir Ísraelshers á Sýrland eru í hundraðatali frá því borgarastríðið hófst þar árið 2011. Helstu skotmörkin eru sýrlenski stjórnarherinn, vopnaðar sveitir sem njóta stuðnings frá Íran og Hezbollah. Ísrael lítur á viðveru Írans til stuðnings við forsetann Bashar al-Assad sem ógn við Ísraelsríki. 

Íranir einbeiti sér að vandamálum heima

Bennett staðfesti ekki að Ísraelsher hafi gert árásina sem varð vígamönnunum fjórtán að bana. Hann sagði þó að Íranir hafi ekkert að gera í Sýrlandi, og aðgerðum Ísraelshers lynni ekki fyrr en Íranir fari þaðan. Bennett sagði í sjónvarpsviðtali í heimalandinu að Íranir væru að reyna að koma sér fyrir við landamærin að Ísrael til þess að ógna Tel Aviv, Jerúsalem og Haifa. Þá bætti hann því við að írönsk stjórnvöld ættu að einbeita sér að vandamálum heima fyrir. Þar hafi þeir á nógu að taka vegna kórónuveirufaraldursins og hnignandi efnahags. Tilfelli COVID-19 í Íran eru rétt tæplega 100 þúsund og yfir sex þúsund eru látnir af völdum veirunnar þar í landi. Efnahagur landsins var á heljarþröm áður en faraldurinn hófst, að miklu leyti vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkin lögðu á ríkið árið 2018.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV