Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Makar áfram bannaðir á sængurkvennadeild

06.05.2020 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimsóknarbann á Landspítala verður í meginatriðum með sama hætti og verið hefur undanfarnar vikur, þrátt fyrir að reglur um samkomubann hafi verið rýmkaðar fjórða maí.

Ófrískar konur þurfa þannig áfram að fara einar í sónarskoðanir og fósturgreiningu. Sú breyting verður aftur á móti að feður, eða aðrir aðstandendur fæðandi kvenna, mega fylgja þeim í fæðingu og vera viðstaddir allt fæðingarferlið. Þeir mega aftur á móti ekki koma með þeim á sængurkvennagang. Þá geta hvorki makar né aðrir aðstandendur kvenna í keisarafæðingu fylgt þeim á skurðstofuna en fá að koma stutta stund til að hitta móður og barn eftir fæðingu.

Í tilkynningu á vef spítalans segir að heimsóknir verði aðeins leyfðar í sérstökum tilvikum sem starfsfólk leggur mat á hverju sinni. Þó stendur til að rýmka heimsóknarbann á Vífilsstöðum, Landakoti, líknardeild og á geðdeildum frá 18. maí ef ekki kemur bakslag í faraldurinn. 

Ekki verður tekin ákvörðun um rýmkun heimsóknarbanns við Hringbraut og í Fossvogi fyrr en líður á mánuðinn. 

Fréttin hefur verið uppfærð.