Uppselt í fyrsta hlaupið eftir rýmkun samkomubanns

05.05.2020 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Helgi Jensson - Aðsend mynd
Forsvarsmenn utanvegahlaupsins Vestmannaeyjahringsins, sem nefnist The Puffin Run á ensku, sáu sig í kvöld knúna til að loka fyrir skráningu í hlaupið. Þá höfðu svo margir skráð sig að ekki þótti ráðlegt að hleypa fleirum að með hliðsjón af fjöldatakmörkunum og samskiptafjarlægð. Hlaupið fer fram á laugardag og er fyrsta skipulagða hlaupið sem fer fram eftir að takmarkanir á samkomum voru rýmkaðar í byrjun vikunnar. Áður hafði fjölda hlaupa verið aflýst eða frestað.

Rúmlega tvöfalt fleiri þátttakendur en í fyrra

Hlaupið er nú haldið í þriðja sinn. Fyrsta árið tóku 80 þátt og í fyrra voru hlaupararnir 130 talsins. Nú hafa 300 skráð sig til leiks. Hlaupaleiðin er 20 kílómetrar, hringinn um Eyjuna, en margir taka þátt í boðhlaupi þar sem þeir skipta leiðinni upp á milli sín. Fyrsta kílómetrann er hlaupið innan bæjar en lögregla lokar götunni fyrir annarri umferð svo að þátttakendur hafi nægt svigrúm til að hlaupa, og taka fram úr hver öðrum.

Magnús Bragason, einn af aðstandendum hlaupsins, segist alls ekki hafa búist við svo mörgum hlaupurum. „Nei, við héldum að það yrðu færri. Við afbókuðum alla útlendinga sem voru búnir að skrá sig. Við vonuðumst til þess að heimamenn í Eyjum tækju við sér. Sem þeir gerðu. Svo kom það mikill kippur síðasta sólarhringinn að við þorðum ekki öðru en að loka fyrir skráningu,“ segir Magnús. Það var gert svo hægt væri að tryggja að framkvæmd hlaupsins væri í samræmi við fyrirmæli Almannavarna og ákvæði samkomubanns.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Helgi Jensson - Aðsend mynd
Þátttakandi í Heimaeyjarhringnum 2019.

Skipulagt í samráði við lögreglu og almannavarnir

Magnús segir að skipulag hlaupsins hafi verið endurskoðað í samráði við lögregluna og Almannavarnir. Búið er að mæla upp rássvæðið til að tryggja að tveir metrar verði á milli hlaupara í upphafi. Einnig verður ræsingu skipt upp svo að hlaupararnir fari ekki allir af stað í einu heldur í fimm hollum. Eftir að hlaupið er hafið dreifast þátttakendur svo á 20 kílómetra langri hlaupaleiðinni. Þar sem hægt er að hlaupa Vestmannaeyjahringinn sem boðhlaup byrja ekki allir á sama stað.

„Þetta er allt unnið í samvinnu við lögreglu og Almannavarnir,“ segir Magnús.

Útþrá eftir mikil hlaup á COVID-tímanum

„Fólk er búið að nota COVID tímann til að vera að hlaupa mikið og hefur útþrá til að taka þátt í svona. Fólk er mikið að hlaupa úti í náttúrunni, er ekki á þröngum götum heldur eitt með sjálfu sér. Svo er veðurspáin rosalega góð,“ segir Magnús um líklegar ástæður hins mikla áhuga á hlaupinu. 

Hann segir að margir þeir sem koma til Eyja til að hlaupa séu fólk sem eigi rætur að rekja þangað. Það noti ferðina jafnvel til að hitta ættingja eftir langan aðskilnað. „Fjölskyldan hittist aftur eftir COVID.“

„Okkur þykir ákaflega leiðinlegt að þurfa að loka fyrir þá sem ekki voru búnir að skrá sig en minnum á Vestmannaeyjahlaupið 5. september sem verður haldið í tíunda skipti,“ segir Magnús. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi