Svöruðu 400 erindum á dag eftir COVID en voru 550 á ári

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Utanríkisráðuneytið gerði ráð fyrir því að sendiráð Íslands í Peking myndi gefa út tvöfalt fleiri vegabréfsáritanir hingað til lands í ár miðað við í fyrra áður en kórónuveirufaraldurinn lamaði flugsamgöngur í heiminum. Borgaraþjónusta ráðuneytisins hefur aðstoðað hátt í tólf þúsund Íslendinga erlendis frá því faraldurinn skall á.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð var fyrir Alþingi í dag. 

Borgaraþjónusta ráðuneytisins þurfti að margfalda starfsemi sína eftir að gagnagrunnur var opnaður fyrir Íslendinga erlendis vegna COVID-19. Dagana 14.-19. mars svaraði borgaraþjónustan um 400 erindum á dag. Til samanburðar má nefna að árið 2018 bárust alls 550 erindi til borgaraþjónustunnar, að frátöldum fjölmörgum erindum sem sendiskrifstofur og ræðismenn afgreiddu það árið. 

Í skýrslunni er bent á að umfangið virðist sömuleiðis hafa verið töluvert í samanburði við borgaraþjónustur annarra ríkja. Á sama tíma og borgaraþjónustan svaraði tvö þúsund erindum bárust fregnir af því að sjö þúsund manns hefðu haft samband við borgaraþjónustu Noregs og tuttugu þúsund haft samband við borgaraþjónustu Spánar. 

Frá lokum mars og fram í miðjan apríl var haft beint samband við tæplega sex þúsund Íslendinga erlendis, fyrst utan Evrópu en svo einnig í Evrópuríkjum. Hringt var í á þriðja þúsund manns en aðrir fengu sérsniðin skilaboð í tölvupósti og með smáskilaboðum. Alls aðstoðaði borgaraþjónustan um tólf þúsund manns.

Mynd með færslu
 Mynd:
Búist var við mun fleiri kínverskum ferðamönnum í ár.

Gerðu ráð fyrir tvöfalt fleiri umsóknum frá Kína í ár

Sendiráðið í Peking fjölgaði afgreiðslustöðum úr einum í átta á síðasta ári og gaf út 15.202 Schengen-áritanir til Ísland. Það voru 84% allra áritana sem gefnar voru út í íslenskum sendiráðum. Gert hafði verið ráð fyrir að sá fjöldi myndi að lágmarki tvöfaldast á árinu 2020, ekki síst vegna fyrirhugaðrar opnunar afgreiðslustaða í sjö borgum til viðbótar í Kína á þessu ári og fyrirhuguðu flugi flugfélagsins Juneyao Airlines á milli Sjanghæ og Keflavíkur með viðkomu í Helsinki, sem átti að hefjast í lok mars.

Þá voru ellefu afgreiðslustaðir fyrir vegabréfsáritanir opnaðir á Indlandi á síðastliðnum tíu mánuðum og fimm afgreiðslustaðir voru opnaðir í Bandaríkjunum frá áramótum. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi