
Smá uppnám vegna „fyrirspurnaflóðs“ Björns Leví
Björn Leví hefur síðustu tvo daga lagt fram 18 fyrirspurnir um lögbundin hlutverk, meðal annars Seðlabanka Íslands, umboðsmanns barna, ríkislögmanns og ÁTVR. Og von er á fleiri. Björn Leví er reyndar býsna öflugur þegar kemur að þessu. Á síðasta þingi lagði hann fram 81 fyrirspurn, nærri helmingi fleiri en sá þingmaður sem kom næst honum.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gerði athugasemdir við allar þessar fyrirspurnir í ræðu um störf þingsins og fannst þær ekki nógu skýrar eða afmarkaðar. Flest svörin væru í lögum og hægt væri að fletta þeim upp í lagasafninu sem væri öllum aðgengilegt. Óþarfi væri að eyða tíma starfsmanna ráðuneyta í þennan gjörning.
Björn Leví svaraði fyrir sig og undraðist að Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, skyldi ekki gera athugasemd við ræðu Birgis. Ekki hefði verið fylgt þeirri meginreglu þingsins að gera þingmönnum kleift að svara fyrir sig þegar rætt væri um þingstörf þeirra í ræðustól. Það væri síðan forseta þingsins að kenna hversu margar fyrirspurnirnar væru því hann hefði ekki viljað kvitta upp á að þær væru sameinaðar og beint að ráðuneytunum.
Birgir baðst afsökunar á því að hafa ekki látið Björn Leví vita af ræðu sinni fyrirfram og játaði fúslega að það hefði verið smekklegra. Skoðun hans á þessu fyrirspurnaflóði hefði samt ekkert breyst.
Steingrímur staðfesti síðan að hann hefði neitað að skrifa upp á fyrri fyrirspurnir Björns Leví þar sem hann hefði talið að ekki hefði verið hægt að svara þeim í stuttu máli eins og gert væri ráð fyrir. Aftur á móti hefði hann skrifað upp á hinar fyrirspurnirnar sem gætu, þegar allt kæmi til alls, orðið 60 til 80 talsins. Fyrirspurnirnar væru skýrt afmarkaðar og rúmuðust innan marka þingskapalaga um skriflegar fyrirspurnir.