Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólöglegt og stórhættulegt bað

05.05.2020 - 20:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Fjöldi fólks hefur stefnt sér í voða síðustu daga með því að bara sig í heitu affallsvatni frá Reykjanesvirkjun í stórgrýttri fjörunni. Talsmaður virkjunarinnar segir þetta stórhættulegt, miklar hitabreytingar geti orðið á vatninu auk þess sem hafsstraumar séu sterkir.

Brimið úti fyrir Reykjanesskaga er tilkomumikið og margir voru á faraldsfæti um síðustu helgi áður en slakað var á samkomubanni. Þá fóru að dúkka upp myndir af fjölda fólks á samfélagsmiðlum að baða sig í stórgrýttri fjörunni skammt norður af Reykjanesvita. Þessi nýuppgötvaði baðstaður er þó alls ekki ætlaður til þess að baða sig. Þarna er dælt affallsvatni úr Reykjanesvirkjun og hefur verið gert í fjórtán ár og því er sjórinn hlýr.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

„Það er eins og það sé í umræðunni að þetta sé einhvers konar náttúrulaug en þetta er engan veginn náttúrulaug og hér geta aðstæður breyst mjög hratt. Ef það verður einhver breyting á rekstri virkjunarinnar þá hitnar vökvinn mjög hratt. Getur án viðvörunar farið upp í hundrað gráður. Fyrir utan það þá erum við með Atlantshafið hér á bak við og gríðarlega sterka strauma,“ segir Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, sem rekur Reykjanesvirkjun.

Kristín segir að krafturinn í öldunum sé svo mikill að iðullega brotni niður grindur við affallið. Og klukkan þrjú á þriðjudegi dúkkaði einmitt upp par sem vildi ná eftirminnilegum myndum af sér á sundfötum í öldurótinu. Þau fengu orð í eyra. Og þar sem affallið er ekki baðstaður eru náttúrulega engir búningsklefar. Sjá má ýmislegt sem fólk hefur skilið eftir eins og handklæði og nærbuxur.

„Miðað við hversu hættulegar þessar aðstæður eru þá viljum við biðla til fólks að vera alls ekki að koma hingað. Það er bannað að koma hingað niður eftir. Þetta er iðnaðarsvæði og þetta eru stórhættulega aðstæður,“ segir Kristín Vala.

Það er ekki bara affallsvatn frá Reykjanesvirkjun sem rennur í fjöruna heldur bætist líka við úrgangsvatn frá fiskeldisstöð ekki langt frá, eins og lyktin reyndar ber með sér. Þannig að þeir sem baða sig í þeirri súpu þeir ilma væntanlega mjög náttúrulega.

En getur HS Orka ekki búið betur um hnútana þannig að þessar heitu laugar myndist ekki hérna?

„Það er í rauninni allt annað umræðuefni. Hér erum við ekki að stýra þessu. Þetta er bara hluti af okkar starfsleyfi að fá að losa þennan vökva til sjávar og hefur ekki verið í rauninni inni í umræðunni hingað til,“ segir Kristín Vala.

En er ekki unnt að leiða heitt affallsvatnið í rör og lengra út í sjó?

„Það er svo sem  hægt að skoða ýmislegt en þar sem þetta eru svo gríðarlega sterkir straumar þá brýtur aldan allt sem hér fyrir er eins og þau mannvirki sem hér eru. Það er mjög erfitt að steypa þetta dýpra eða lengra í stórstraumsfjöru,“ segir Kristín Vala.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja veitir HS Orku starfsleyfi. Þar ætla menn að skoða aðstæður en vildu ekki veita fréttastofu viðtal.