Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Lífskjarasamningar standa óskaplega tæpt

05.05.2020 - 19:42
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Forsendur lífskjarasamningana standa óskaplega tæpt segir fjármálaráðherra því allt önnur framtíð blasir við nú en þegar þeir voru gerðir. Verkfall tæplega 300 starfsmanna nokkurra sveitarfélaga sem eru í Eflingu hófst í morgun. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Erna Guðný Jónasdóttir

Starfið er vanmetið segir skólaliði

Eflingarfólkið vinnur í leikskólum, grunnskólum og heimaþjónustu í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og í Ölfusi. Verkfallsfólk kom saman til samstöðufundar í safnaðarheimili Digraneskirkju í Kópavogi í morgun. 

„Hingað til hefur þetta starf verið vanmetið, virkilega vanmetið sem er bara sorglegt. Því við höldum uppi skólum, leikskólum og heilbrigðisgeiranum,“ segir Erna Guðný Jónasdóttir skólaliði í Álfhólsskóla í Kópavogi. 

Dögg Ásgeirsdóttir þjónustuliði í heimaþjónustu hjá Kópavogsbæ segist vilja sjá svipuð kjör hjá Eflingarfólki í Kópavogi og það sem Eflingarfólk fékk í samningum við Reykjavíkurborg:

„Ég skil hlið foreldra og annara mjög vel. Þetta eru auðvitað mjög erfiðar aðstæður. En frá mínu sjónarhorni er ég að berjast fyrir betri launum, fá hærri kjör, betri kjör og ef ekki núna hvenær þá.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Dögg Ásgeirsdóttir.

Óboðlegt ástand fyrir börnin

Ríkisstjórnin kom líka saman í morgun í Ráðherrabústaðnum. Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra sagði eftir fundinn að hann hvetti samninganefndir sveitarfélaga og Eflingar að klára þetta: 

„Þetta er óboðlegt ástand fyrir börnin á þessu svæði.“

En kemur til greina að setja lög?

„Við höfum ekki tekið neina afstöðu til þess. Ég ætlast til þess að samninganefndirnar klári sitt verkefni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson.

 

Allt önnur framtíð nú en þegar samningar voru gerðir

Þegar Efling og Samband íslenskra sveitarfélaga var í kjaraviðræðum fyrir örfáum mánuðum hafði enginn kórónuveirufaraldur lagt efnahagslíf hér og í heiminum á hliðina. Ríkið á líka eftir að gera nokkra kjarasamninga og segir fjármálaráðherra þá eiga að endurspegla aðra samninga ríkisins þar sem lífkjarasamningarnir lögðu línuna: 

„Ég held að það sé nú alveg óhætt að segja að forsendur fyrir lífskjarasamningunum standi alveg óskaplega tæpt þ.e.a.s. að þegar að menn gengu að þeim samningum þá sáu menn allt aðra framtíð heldur en þá sem við okkur blasir í dag. Það er ákveðið kraftaverk að þeir skuli enn halda og að við séum enn að gera samninga sem taki mið af lífskjarasamningum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. 

Ekki endilega ástæða til að taka samninga upp með rótum

Hann segir svigrúmið í fyrra hafi verið allt annað en nú: 

„Það er kannski ekki endilega ástæða til þess að taka þá upp með rótum. En það er ekki skrýtið að atvinnurekendur margir kvarti undan því og að það hafi verið samtöl um að gera tilteknar aðlaganir vegna þess að aðstæður hafa breyst.“

Augljóslega ekki hægt að semja umfram lífskjarasamningana

Hann segir að nú sé varnarbarátta við að verja það sem um hafi verið samið og að það kosti einhverjar fórnir.

„Samningarnir sem eru útafstandandi eru fyrst og fremst samningar þar sem verið er að fara fram á meira, meira heldur en samnið var um í lífskjarasamningunum og mér finnst bara alveg augljóst að það er ekki svigrúm til þess.“