COVID-19 og utanríkisstefna Trumps

05.05.2020 - 17:00
COVID-19 · Erlent · Trump
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. - Mynd: EPA-EFE / Polaris POOL
Það er víða verið að ræða þörfina á alþjóðlegu átaki gegn COVID-19 farsóttinni, bæði hvað varðar fjárfestingu í bóluefni, lyfjum gegn veirunni og eins aðgerðum til að læra af reynslunni hingað til og hindra útbreiðslu veirusóttarinnar. Viðleitni í þessa veruna er einnig í uppsiglingu en andstætt því sem hefur oft verið áður er enginn vilji í Hvíta húsi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að taka forystuna.

Heimurinn án bandarískrar forystu

Alveg síðan Donald Trump tók við embætti Bandaríkjaforseta í janúar 2017 hefur fastur liður í umræðunni um störf hans verið andúð hans á alþjóðasamstarfi. Rætt bæði í gamni og alvöru að heimurinn sé svolítið eins og höfuðlaus her án forystu Bandaríkjaforseta.

Bandarísk utanríkisstefna: ýmist einangrun eða afskipti

Það hafa vissulega skipst á skeið einangrunarhyggju og utanríkisafskipta í sögu bandarískrar utanríkisstefnu en varla neitt í líkingu við það sem nú er, sama hvort það er COVID-19 veiran, alþjóðaviðskipti eða varnarmál. Varðandi veiruna og tök Trumps á því máli þá hafa ýmsir rifjað upp undanfarnar vikur hvernig Barack Obama Bandaríkjaforseti lagði bæði bandarískan mátt og fé í baráttuna gegn ebólu í Afríku 2014. Já, einmitt af því heimurinn gæti ekki verið óhultur með svo hættulegan smitsjúkdóm óhaminn.

Ekkert bandarískt fé til WHO en boðskapur Trumps óklár

Nú í apríl ákvað Donald Trump að svipta Alþjóða heilbrigðisstofnunina, WHO, fjárframlagi. Í framhaldinu minnti hann á að Bandaríkjastjórn hefði hingað til verið stærsti styrktaraðili stofnunarinnar. ,,Stofnunin villti um fyrir okkur, ég veit ekki. Þeir  hljóta að hafa vitað meira en þeir vissu,“ sagði forsetinn.

Samhengið í orðum Trumps er ekki alltaf auðsætt en Alþjóða heilbrigðisstofnunin er nú rækilega í skammarkrók forsetans. Hans höfuðáhersla undanfarna daga hefur verið að Kínverjar hafi búið veiruna til í rannsóknarstofu. Kenning, sem aðrar þjóðir og flestir vísindamenn taka ekki undir. Það vantar þó ekki samsæriskenningarnar í þessa veruna og þær hefur Trump nú rækilega nært.

Alþjóðasamvinna um COVID-19, til að jafna aðstöðu þjóða

Aðrar þjóðir hafa tekið aðra afstöðu og undanfarið hefur verið viðleitni víða til að efla Alþjóða heilbrigðisstofnunina og styrkja alþjóðasamvinnu gegn farsóttinni. Einn þeirra sem hefur talað ákaft fyrir nauðsyn alþjóðasamstarfs, líka til að tryggja jafnt aðgengi allra þjóða að bóluefni og lyfjum er António Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Ekki bóluefni eða meðferð fyrir eitt land eða einn heimshluta heldur ódýrt, áhrifamikið lyf, auðvelt í notkun og aðgengilegt fyrir alla, hvar sem er í heiminum, voru skilaboð Guterres 24. apríl, þegar ýmsir leiðtogar úr stjórnmálum og viðskiptalífinu ræddu saman á netfundi til að undirbúa átak í þessa veruna.

Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar tók í sama streng. Í vændum væri söguleg samvinna. Öll lönd yrðu að njóta afrakstursins af samstarfi til að hraða þróun bóluefnis, lyfja og greiningar gegn veirunni og sem gagnaðist öllum.

Heimurinn er varnarlaus meðan COVID-19 leynist einhvers staðar

Einmitt þetta jafna aðgengi er lykilatriði í huga þeirra, sem sjá heiminn sem eina heild. Heild, þar sem einstakir heimshlutar eru berskjaldaðir ef COVID-19 veiran nær að bíta sig fasta einhvers staðar, sama þótt höf og heimsálfur séu á milli. Áfram hætta á að smitið berist til landa, sem hafa talið sig laus við óværuna.

Átta milljarðar dala til alþjóðlegt COVID-19 átak, án Trumps og Pútíns

Í framhaldinu funduðu stjórnmálaleiðtogar á mánudaginn, aftur þetta að taka á veirufaraldrinum sem alþjóðlegri vá. Fundurinn var haldinn að undirlagi Evrópusambandsins, Noregs, Kanada, Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Japan og Sádí-Arabíu. Tilgangurinn, að tryggja fjármagn í rannsóknir og þróun COVID-19 bóluefnis og lækninga. Alls hafa safnast átta milljarðar Bandaríkjadala í þetta átak.

Melinda Gates ávarpaði fundinn. Hún og maður hennar, Bill Gates, hafa um árabil lagt fé til rannsókna á malaríu víða um heim. Nei, Bandaríkjaforseti tók ekki þátt í fundinum, heldur engir bandarískir fulltrúar. Vladimir Pútín Rússlandsforseti leiddi fundinn einnig hjá sér.

Einangrunarstefna sem stendur, framvindan ræðst í haust

Eftir tæpa fjögurra ára vist Trumps í Hvíta húsinu eru leiðtogar einstakra landa og alþjóðastofnana vissulega orðnir vanir þeim vindum, sem þaðan blása. Vita sem er að Bandaríkjaforseti er öldungis ekki hallur undir alþjóðasamvinnu, bæði af hugmyndafræðilegum ástæðum en kannski einnig af því hann virðist ekki finna sig í leiðtogahlutverkinu á alþjóðavettvangi.

Það gildir jafnt um viðbrögðin við COVID-19 veirunni og önnur mál, stór og smá, að húsráðandinn í Hvíta húsinu er sjaldnast tilbúinn að taka höndum saman við aðrar þjóðir. Hver framvindan svo verður er á valdi bandarískra kjósenda nú í haust.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi