Björguðu hval úr veiðarfærum

05.05.2020 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Áhöfninni á varðskipinu Þór tókst að bjarga hnúfubak sem flæktist í veiðarfærum fiskibáts í síðustu viku. 

Landhelgisgæslan fékk tilkynningu um hvalinn sem var rétt hjá Langanesi. Varðskipið Þór, sem var í grenndinni, var kallað út og sent á vettvang. Áhöfnin á Þór tók til við að að losa hnúfubakinn úr veiðarfærunum og það tókst á endanum. Eftir að hvalurinn var laus fylgdi áhöfnin honum eftir til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. 

Þegar öll veiðarfæri voru aftur komin um borð í fiskibátinn fór áhöfn Þórs aftur um borð í varðskipið. Ekki var að sjá að hvalnum hefði orðið meint af og hann synti í burtu frelsinu feginn.
 

Jóhannes Ólafsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi