Áætlað tekjutap meistaraflokka Selfoss 42,5 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Áætlað tekjutap meistaraflokka Selfoss 42,5 milljónir

04.05.2020 - 16:45
Meistaraflokkar Selfoss gætu orðið af tekjum upp á 42,5 milljónir króna vegna kórónuveirufaraldursins. Framkvæmdastjórn félagsins hefur þungar áhyggjur af þeim áhrifum sem farsóttin hefur haft á starfsemi, þjónustu og rekstur þess.

Þetta kemur fram í bréfi sem Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Selfoss, sendi bæjarráði Árborgar og var tekið fyrir á fundi þess á fimmtudag. 

Þar segir að „gríðarleg óvissa“ sé um meistaraflokka félagsins í bæði handbolta og fótbolta. Keppnistímabilið hafi verið að ná hámarki þegar samkomubann var sett og keppnistímabilið í fótbolta sé handan við hornið. Öflugir meistaraflokkar hafi mjög jákvæð samfélagsleg áhrif og rifjar framkvæmdastjórinn þar upp þegar að „bikarinn kom tvívegis yfir brúna“ á síðasta ári. 

Karlalið félagsins í handbolta varð Íslandsmeistari á síðasta ári og kvennalið þess í knattspyrnu varð bikarmeistari. 

Gissur segir í bréfi sínu að meistaraflokkar félagsins hafi verið reknir af metnaði og útsjónarsemi en „nú blasir því miður við að utanaðkomandi aðstæður hrekja meistaraflokka Selfoss að bjargbrúninni.“

Í bréfinu kemur fram að meistaraflokkur Selfoss í handbolta hafi nú þegar orðið af tekjum upp á 13,3 milljónir króna og að tapaður hagnaður af næsta keppnistímabili geti numið 14 til 16 milljónum. Áætlað tekjutap knattspyrnudeildarinnar sé í kringum 15,1 milljón.

Bæjarráð Árborgar samþykkti að fela bæjarstjóra sveitarfélagsins að koma á fundi með forsvarsmönnum Selfossliðsins.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV