Verður NBA-deildin kláruð í Disney-garðinum?

epa07148559 (FILE) - Mickey Mouse and Minnie Mouse figures stand in front of the Christmas tree at The Hong Kong Disneyland in Hong Kong, China, 10 November 2006 (reissued 08 November 2018). The Walt Disney Company on 08 November 2018 is to report its fiscal full year and fourth quarter 2018 financial results.  EPA-EFE/YM
 Mynd: EPA - RÚV

Verður NBA-deildin kláruð í Disney-garðinum?

30.04.2020 - 09:45
NBA-deildinni í körfubolta var slegið á frest líkt og flest öllum öðrum deildum þegar covid-19 faraldurinn fór á flug. Nú vilja forsvarsmenn NBA-deildarinnar finna lausn til að klára deildina og horfa til Disney-garðsins í Orlando.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um það hvernig hægt sé að klára NBA-deildina. Mikilvægast sé þó að huga að heilsu leikmanna og reyna að draga úr smithættu vegna covid-19. Hugmyndin sem nú er á borði forsvarsmanna NBA-deildarinnar er að finna hentugan stað þar sem öll lið deildarinnar geta verið á sama svæði, í hálfgerðri einangrun, þar til deildinni lýkur.

Það er þó ekki hlaupið að því að finna stað sem getur mætt öllum kröfum NBA-deildarinnar og mögulega rúmað 30 NBA-lið á einum á sama staðnum. Einn staður virðist þó tikka í boxinn: Disney-garðurinn í Orlando í Flórída.

Disney-garðurinn þykir afar vænlegur kostur en þar eru fjölmargir íþróttavellir og hótel. Garðurinn er þegar útbúinn góðri fjölmiðlaaðstöðu og því auðvelt að senda leikina út í beinni útsendingu án mikillar fyrirhafnar en ljóst er að engir áhorfendur verða á leikjum deildarinnar, haldi leiktíðin áfram.

Anthony Fauci, forstöðumaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar í Bandaríkjunum, er þó ekki sannfærður um að hægt verði að koma íþróttalífi Bandaríkjanna í samt horf á næstunni. Í samtali við New York Times segir Fauci að ef það sé ekki hægt að tryggja algjört öryggi leikmanna að þá verði að bíða með áframhaldandi keppni.