Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Býður vopnahlé í Líbíu það sem eftir lifir Ramadan

30.04.2020 - 06:42
epa08135159 Greek Foreign Ministrer Nikos Dendias (L) shakes hands with Commander of the Libyan National Army (LNA) Khalifa Haftar (R) during their meeting in Athens, Greece, 17 January 2020. Gen. Haftar is visiting Athens where he is expected to meet with Greek Prime Minister Mitsotakis.  EPA-EFE/YANNIS KOLESIDIS
Khalifa Haftar. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Líbíski stríðsherrann Khalifa Haftar lýsti því yfir í gær að hersveitir hans væru reiðubúnar að hvíla vopnin það sem eftir lifir Ramadan, hins heilaga föstumánaðar múslíma, sem byrjaði hinn 24. þessa mánaðar.

Mjög hefur verið þrýst á stríðandi fylkingar í landinu að gera vopnahlé í Ramadan en þær brýningar hafa enga áheyrn fengið fram að þessu. Upp á síðkastið hafa sveitir Haftars hins vegar farið halloka fyrir hersveitum Trípólístjórnarinnar og öðrum vopnuðum sveitum sem fylgja henni að málum.

„Yfirhershöfðinginn tilkynnir hlé á öllum hernaðaraðgerðum af hans hálfu," sagði talsmaður Haftars í Benghaziborg í austanverðri Líbíu í gær. Haftar ræður ríkjum á stórum svæðum í landinu austanverðu og lagði upp í sókn gegn Trípólístjórninni í vestri í apríl í fyrra. Varð honum nokkuð ágengt framan af en síðustu vikur hefur stríðsgæfan snúið baki við honum og hans liði.

Skammt er síðan stjórnarherinn náði að hrekja lið Haftars frá tveimur borgum sem það náði á sitt vald í fyrra, og nú er hart sótt að höfuðstöðvum Líbíska þjóðarhersins, eins og Haftar kallar sveitir sínar, í vestanverðu landinu.

Margoft samið um vopnahlé

Trípólístjórnin hefur ekki brugðist við vopnahléstilboði Haftars enn sem komið er og tíðindamaður AFP-fréttastofunnar í Trípólí greinir frá því að sprengingar hafi heyrst frá miðborginni eftir tilkynningu stríðsherrans. Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og stjórnvöld nokkurra landa hvöttu í liðinni viku til vopnahlés í Líbíu, í það minnsta í Ramadan.

Á því ári sem liðið er frá því að Haftar lagði upp í herför sína til Trípólí hefur margoft verið samið um vopnahlé, sem jafnoft hefur runnið út í sandinn. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV