Réðist á nágranna sem kvartaði undan hávaða

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögregla var kölluð á vettvang í Austurborg Reykjavíkur á ellefta tímanum í gær þegar mjög ölvuð kona brást ókvæða við kvörtun nágranna undan hávaða. Var hún handtekin fyrir líkamsárás og vinkona hennar sem var að skemmta sér með henni var líka handtekin fyrir reyna að hindra lögreglu við störf sín.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.Þar segir að nágranni hafi bankað á hurðina hjá konunum vegna hávaða sem barst frá íbúð þeirra og beðið húsráðanda að draga úr látunum.

Við því var ekki orðið, heldur réðist húsráðandi á manninn og klóraði hann. Var þá hringt á lögreglu, sem handtók árásarkonuna og færði hana í fangageymslu þar sem hún bíður yfirheyrslu.

Hin konan reyndi að tálma störf lögreglu og var einnig handtekin, segir í tilkynningu lögreglu, en leyft að fara heim að loknu viðtali. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi