Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frumvarp árás á réttindi trans fólks í Ungverjalandi

29.04.2020 - 16:24
Mynd með færslu
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78.  Mynd: Kristín María - Aðsend mynd
Frumvarp ríkisstjórnar Ungverjalands, sem þykir skerða mjög réttindi trans fólks, var fyrst sent til þingsins á alþjóðlegum degi sýnileika transfólks, 31. mars. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78, segir frumvarpið vera árás á réttindi trans fólks þar í landi.

Verði frumvarpið að lögum þá gildir það kyn sem börnum er úthlutað við fæðingu. Fólk sem fer í kynleiðréttingu getur því ekki látið breyta skráningu á kyni sínu. Af því leiðir að alls staðar í kerfinu, og til dæmis í vegabréfi, er skráð það kyn sem fólki var úthlutað við fæðingu. „Þetta er árás á réttindi trans fólks í Ungverjalandi. Það eru þegar miklir fordómar gagnvart trans fólki í landinu og fyrir utan að vera brot á mannréttindum, þá á þetta alveg örugglega eftir að auka á fordóma. Þetta er algjörlega skelfilegt,“ segir Þorbjörg.

epa08315631 Hungarian Prime Minister Viktor Orban delivers his speech about the current state of the coronavirus during a plenary session in the House of Parliament in Budapest, Hungary, 23 March 2020.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA-EFE - MTI

Kalla eftir afskiptum ESB

Ungverjaland er eitt aðildarríkja Evrópusambandsins og hafa ýmis mannréttindasamtök kallað eftir afskiptum sambandsins af stöðu mála. Þorbjörg segir að hagsmunasamtök hinsegin fólks víða um heim séu uggandi yfir því að stjórnvöld sumra ríkja nýti sér óvissuna sem fylgi kórónuveirufaraldrinum til að traðka á mannréttindum. Alþjóðasamfélagið þurfi því að vera á varðbergi. 

Vegna faraldursins hefur þingið þegar samþykkt að veita Viktor Orban, forsætisráðherra, ótímabundið vald til þess að stjórna landinu með tilskipunum. Þrátt fyrir það situr þingið áfram. Þorbjörg segir tímasetningu frumvarpsins úthugsaða og að þetta séu hefðbundnir tilburðir einræðisráðherra sem nýti sér faraldurinn til að koma málum sem þessum, þar sem brotið er á mannréttindum, í gegn.

Mannréttindastjóri hvetur þingið til að segja nei

Independent hefur eftir Graeme Reid, sem fer með mál hinsegin fólks hjá Mannréttindavaktinni, Human Rights Watch, að lögin eigi eftir að gera út um tilveru trans fólks í Ungverjalandi. Hann hvetur Evrópusambandið til að bregðast við. Óttast er að trans fólk í Ungverjalandi eigi í stórum stíl eftir að flytja úr landi.

epa08386190 Passengers wear protective face masks on the escalator of the Szell Kalman station in Budapest, Hungary, 27 April 2020. From today face masks are mandatory in Budapest when shopping and at public transport due to the Coronavirus outbreak.  EPA-EFE/Zsolt Szigetvary HUNGARY OUT
Á Szell Kalman lestarstöðinni í Búdapest í vikunni.  Mynd: EPA-EFE - MTI

Dunja Mijatovic, mannréttindastjóri Evrópusambandsins, hefur lýst því yfir að lögin yrðu brot á mannréttindum. Hún hefur hvatt þingið til að hafna þeim. 

Fram hefur komið að lögfræðingar telji lögin stangast á við evrópsk mannréttindalög og að því verði hægt að reyna að fá þeim hafnað bæði í hæstarétti í Ungverjalandi og fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir