Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brot Múlabergs talin meiriháttar

28.04.2020 - 14:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson
Skuttogarinn Múlaberg SI 22 var sviptur veiðileyfi í tvær vikur eftir að háseti um borð var staðinn að brottkasti við gullkarfaveiðar á Reykjaneshrygg í febrúar. Sviptingin tók gildi 21. apríl.

Ekki fást nánari upplýsingar hjá Fiskistofu um hversu miklu var fleygt fyrir borð, eða yfirlit yfir hvaða tegundir það voru.

„Töluverðu magni“ af fiski kastað í sjóinn

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, settur Fiskistofustjóri, sagði þó í samtali við fréttastofu að „töluverðu magni“ af fiski hefði verið varpað í sjóinn, bæði þorski og aukaafurðum. Brotin séu talin meirháttar og þar sem talað sé um brot í fleirtölu bendi til að fleira hafi ekki verið í lagi um borð.

Skipstjórnendur beri ábyrgð á áhöfninni

Emil Magnússon, sem var afleysingarskipstjóri í þessarri veiðiferð, segir að hásetinn sem staðinn var að því að kasta fiski í sjóinn sé ekki fastur maður í áhöfn Múlabergs. Hann hafi verið kallaður í afleysingar þegar háseti forfallaðist rétt fyrir brottför. Áslaug segir þetta engu breyta. Skipstjórnendur beri ábyrgð á þeim sem eru í áhöfn.