Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandaríkin buðu Færeyingum aðstoð vegna COVID-19

28.04.2020 - 05:57
epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd: EPA - KEYSTONE
Sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn hafði samband við færeysku landsstjórnina um miðjan mars og bauð fram aðstoð Bandaríkjanna. Jenis av Rana, yfirmaður utanríkismála í færeysku landsstjórninni, staðfestir þetta við grænlenska dagblaðið Sermitsiaq.

Hann segir Cörlu Sands, sendiherra Bandaríkjanna, hafa spurt hvort Bandaríkin gætu aðstoðað á einhvern hátt. Hann segist hafa svarað henni því að Færeyingar væru þakklátir fyrir það, og ef það reyndist nauðsynlegt myndi hann hafa samband aftur. Sands greindi þó aldrei frá því hvað væri fólgið í tilboðinu. 

Grænlendingar þáðu fjárhagsaðstoð

Sands bauð Grænlendingum einnig aðstoð, sem þeir þáðu. Þeir fá fjárhagsaðstoð sem nemur 83 milljónum danskra króna, jafnvirði um 1,8 milljarða íslenskra króna. Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, fagna báðir aðstoðinni, en danskir stjórnarandstöðuþingmenn eru varir um sig. Þeirra fremstur er Karsten Hønge, þingmaður SF og nefndarmaður í utanríkisnefnd danska þingsins. Hann telur útspil Bandaríkjastjórnar vera baktjaldamakk til þess að mýkja landsstjórnirnar í Grænlandi og Færeyjum, svo Bandaríkin fái sínu fram það síðar meir. 

Kofod er rólegri yfir aðstoð Bandaríkjanna. Hann segir jafnframt eðlilegt að Færeyingar ræði viðskipti við önnur ríki, sérstaklega þau sem Danir tengjast sterkum pólitískum böndum. 

Aukinn áhugi í Færeyjum

Sjálfur er Jenis av Rana þakklátur fyrir stuðning danska utanríkisráðherrans. „Sumum finnst ég kannski barnalegur. En ég trúi því að ég sé góður mannþekkjari, ég hef jú verið læknir í 37 ár," hefur Sermitsiaq eftir Jenis av Rana. Hann telur símtal Sands hafa verið á vinsamlegu nótunum, og ekkert annað hafi hangið á spýtunni en aðstoð á erfiðum tímum. 

Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Høgni Hoydal segir að ekki sé hægt að útiloka að eitthvað annað liggi að baki þegar bandaríski sendiherrann hringir. Hann kveðst þó þakklátur fyrir að Sands hafi haft beint samband við Færeyjar í stað þess að fara í gegnum Danmörku. Hann segir Færeyinga vera best til þess fallna að ákveða hvað sé best fyrir Færeyjar. Áhugi stórvelda á eyjunum eigi eftir að vaxa með árunum, og því verði Færeyingar sjálfir að fá að stjórna aðgerðum, en ekki danskir stjórnmálamenn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV