Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fresta kvörðun um formlegar sameiningarviðræður

27.04.2020 - 16:21
sameiningar sveitarfélaga í austur-húnavatnssýslu. Skagabyggð, Skagaströnd, Blönduósbær og Húnavatnshreppur
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Ákvörðun um það hvort hefja skuli formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu verður tekin í september. Áður var gert ráð fyrir sveitarstjórnir tækju ákvörðun í apríl eða maí.

Nýjar tímasetningar voru ákveðnar á síðasta fundi sameiningarnefndarinnar. Þar er miðað við að kynna niðurstöður greininga og tillögur í lok maí eða byrjun júní. Þá móti sameiningarnefndin áherslumál og verkefni í sumar í samráði við þingmenn og ríkisstjórn.

Um miðjan ágúst verði fjallað um tillögu um hvort hefja skuli formlegar sameiningarviðræður og í september afgreiði sveitarstjórnirnar tillögu þess efnis.

Á fundi nefndarinnar bókaði Halldór G. Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar Skagastrandar, að forsenda fyrir því að þessi tímalína geti staðist sé að hægt verði að ná ásættanlegu samtali við þingmenn og ríkisstjórn innan þess tíma sem um ræðir.