Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bareigandinn í Ischgl segist hafa hlýtt yfirvöldum

27.04.2020 - 21:58
epa08293579 (FILE) - Skiing tourists in Ischgl, Austria, 30 November 2013 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR  AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA
Eigandi barsins í Ischgl sem reyndist uppspretta hundruða tilfella COVID-19 segist aðeins hafa hlýtt yfirvöldum þegar hann hélt barnum opnum í nokkra daga eftir að smit var staðfest hjá starfsmanni hans. Eftir á að hyggja hefði hann þó átt að loka staðnum fyrr.

Íslensk stjórnvöld gerðu þeim austurrísku viðvart um hópsýkingu í Ischgl 4. mars. Það tók Austurríkismenn sex daga að loka barnum Kitzloch þar sem smitið reyndist eiga upptök sín og þá höfðu nokkur hundruð skíðamanna smitast þar. Það tók svo níu daga að loka skíðasvæðunum. Lögregla rannsakar nú viðbrögð barsins og yfirvalda. 

Bernhard Zangerl eigandi barsins sagði við austurríska ríkissjónvarpið að ljóst væri að mistök hafi verið gerð við upplýsingagjöf.  „Varðandi smitin á Íslandi sem rakin voru til Ischgl  tel ég að heilbrigðis og dómsmálayfirvöld komist til botns í þeim málum.“

Zangerl viðurkennir að hann hefði átt að bregðast öðruvísi við. „ Eftir á að hyggja hefðum við getað lokað fyrr en á sínum tíma fórum við eftir öllum leiðbeiningum og treystum því að sérfræðingarnir myndu gefa okkur rétt ráð og fyrirmæli.“

Hann hafi hins vegar ekki getað áttað sig á að áhrifin yrðu svo mikil á svo skömmum tíma. Hann óttast ekki lögsókn þrátt fyrir að hundruð tilfella megi rekja til barsins sem hann rekur, því hann hafi farið eftir tilmælum yfirvalda. „ Við höfum ekki þaggað niður nein tilvik,  við höfum ekki lengt tímabilið,  við bara treystum fyrirmælum stjórnvalda og fórum eftir þeim.“

Stefnt er að því að opna staðinn aftur næsta vetur, og Zangerl hyggst ekki breyta nafninu til að fjarlægja sig frá atvikinu.  „Við berum ekki sök á þessu ástandi.  Við erum bæði þolendur og grunaðir, eins og aðrir.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV