„Ýmislegt gerst sem þarfnast nánari skýringar“

26.04.2020 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Þorfinnur Ómarsson, EFTA
Sendiherra Íslands í Brussel segir það hafa komið sér spánskt fyrir sjónir þegar átti að flytja hann til Indlands með skömmum fyrirvara, þegar flugsamgöngur víða um heim liggja niðri um. Hann furðar sig á að utanríkisráðuneytið hafi farið með mál hans í fjölmiðla án samráðs við sig.

„Ég hefði helst kosið að við myndum lægja þessar öldur og taka þetta mál af dagskrá. Ég tel að við sem utanríkisþjónusta eigum ekki að standa fyrir einhvers konar hringleikahúsi, öðru fólki til afþreyingar, í fjölmiðlum,“ segir Gunnar Pálsson sendiherra í Brussel. 

Í svari frá utanríkisráðuneytinu til fréttastofu í gær sagði að Gunnar hefði beðist undan flutningi á aðra sendiskrifstofu og það sé ástæða þess að hann snúi heim í sumar. Gunnar segir margt benda til að kveikjuna að atburðarrásinni megi rekja til þess þegar hann beindi því til starfsfólks sendiráðsins í mars að vinna heima vegna kórónuverufaraldursins.

„Ráðuneytið bregst við fljótlega eftir að við grípum til aðgerða hér með það fyrir augum að halda skrifstofunni í rekstri og verja okkar starfsfólk fyrir smithættu, með aðfinnslum sem mér fannst ég knúinn til að svara á þeim tíma.“

Tímasetningin vekur upp spurningar

Skömmu síðar var Gunnari tilkynnt um að flytja ætti hann á sendiskrifstofuna á Indlandi, á sama tíma og ferðalög voru að leggjast af vegna kórónuveirunnar og eru enn í lamasessi.

„Engu að síður var af einhverjum ástæðum kappkostað að ganga frá því að slíkir flutningar ættu sér stað. Það vekur spurningar sem ég er ekki í aðstöðu til að svara heldur verður ráðuneytið sjálft að varpa ljósi á þær.“

Er þá að þínu mati kominn upp trúnaðarbrestur milli þín og ráðuneytisins? 

„Ég myndi ekki vilja ganga svo langt, en ég tel að þarna hafi ýmislegt gerst sem þarfnast nánari skýringar, við skulum skilja við það þannig,“ segir Gunnar.

Utanríkisráðherra ætlar ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna þegar fréttastofa leitaði viðbragða í morgun, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi