Gripnir glóðvolgir eftir innbrot í skartgripabúð

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Um stundarfjórðungi eftir fjögur í nótt fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um innbrot í skartgripaverslun í miðborginni. Lögreglan fór á vettvang og handtók tvo menn, grunaða um innbrotið, í næstu götu frá vettvangi. Þeir voru vistaðir í fangageymslu og málið er nú í rannsókn.

Skömmu fyrir klukkan 18 í gærkvöld var tilkynnt um par í sjálfheldu við Gróttu á Seltjarnarnesi. Parið var á leið frá vitanum þegar flæddi að og þurfti það frá að hverfa. Björgunarsveitin Ársæll kom á vettvang og aðstoðaði parið í land, sem var orðið blautt í fæturna en annars óhult.

Þá stöðvaði lögreglan ökumann í miðborginni um eittleytið í nótt, en við afskipti af honum kom í ljós hnífur í hurðinni. Ökumaðurinn sagðist hafa hann með sér til varnar, en hann samþykkti að afsala sér hnífnum til eyðingar og hann verður kærður fyrir brot á vopnalögum.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi