Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögur ný smit síðasta sólarhring - 84% hafa náð bata

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Fjögur ný kórónuveirusmit greindust hér á landi síðastliðinn sólarhring, samkvæmt nýjum tölum sem birtar voru á covid.is rétt fyrir klukkan eitt í dag. Tvö smit greindust á veirufræðideild Landspítalans og tvö hjá Íslenskri erfðagreiningu. Einn þeirra sem greindist var í sóttkví við greiningu, en hinir þrír ekki.

Virkum smitum heldur áfram að fækka, sautjánda daginn í röð. Virk smit hafa ekki verið færri síðan 17. mars, en þau eru nú 270.

Staðfest smit frá upphafi faraldursins eru 1.789 hér á landi. Tíu manns hafa látist af völdum veirunnar, en 1.509 hafa náð bata. Það eru rúmlega 84% þeirra sem hafa smitast frá upphafi.

749 manns eru nú í sóttkví hér á landi og 270 í einangrun. 18.623 hafa lokið sóttkví. Alls hafa 45.093 sýni verið tekin.

15 manns með COVID-19 eru á sjúkrahúsi, þar af fimm á gjörgæslu.