Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vígamenn felldu tugi þorpsbúa í Mósambík

22.04.2020 - 04:37
Mynd með færslu
Liðsmenn íslamska ríkisins í Norður-Írak. Mynd: wikipedia
Vígahreyfing herskárra íslamista felldi 52 þorpsbúa í norðurhluta Mósambík fyrr í mánuðinum. Talið er að fórnarlömbin hafi neitað að ganga til liðs við hreyfinguna. Guardian hefur eftir Orlando Mudumane, talsmanni lögreglu, að vígamennirnir hafi sóst eftir liðstyrk ungs fólks í þorpinu, en mætt andstöðu þeirra. Vígamennirnir hafi brugðist reiðir við því að stráfellt unga fólkið á hrottafenginn hátt. Rannsókn er hafin og árásarmannanna leitað.

Vígamenn hafa látið til sín taka síðustu vikur. Þeir hyggjast reisa kalífadæmi í norðurhluta Mósambík, sem er ríkt af gasauðlindum. Þeir hafa náð valdi á opinberum byggingum, lokað vegum og flaggað fána hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki í þorpum og bæjum í Cabo Delgado héraði. Vígamenn sem segjast úr röðum íslamska ríkisins segjast bera ábyrgð á nokkrum árásum sem hafa verið gerðar í héraðinu.

Síðustu rúm tvö ár hafa vígamenn orðið yfir 900 manns að bana í þorpum í héraðinu. Hundruð þúsunda hafa orðið að flýja heimili sín. Stór orkufyrirtæki sem eiga vinnslustöðvar á svæðinu óttast mjög um framhaldið. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV