Netanyahu forsætisráðherra næstu 18 mánuði

21.04.2020 - 06:43
epa08373902 A handout photo made available by coalition agreement negotiation team shows Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) and Benny Gantz, former Israeli Army Chief of Staff and chairman of the Blue and White Israeli centrist political alliance (L) during a meeting in Jerusalem, 20 April 2020. According to reports, Netanyahu and Gantz agreed to form a unity government and sign a coalition deal after three rounds of parliamentary elections in a year.  EPA-EFE/HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - COALITION TALKS TEAM
Benjamín Netanyahu verður forsætisráðherra í þjóðstjórn Líkúdflokksins og Bláhvíta bandalagsins næstu átján mánuði, samkvæmt samkomulagi þeirra Benny Gantz, leiðtoga síðarnefnda flokksins. Eftir þann tíma segir hann af sér og Gantz tekur við forsætisráðherraembættinu í aðra átján mánuði, fram að næstu kosningum. Leiðtogar Palestínu fordæma stjórnina og kalla hana innlimunarstjórn.

Flokkarnir tveir skipta ráðuneytum jafnt á milli sín og samkomulagið gerir ráð fyrir að fyrstu sex mánuðir stjórnarsamstarfsins snúist fyrst og fremst um aðgerðir til að hamla útbreiðslu COVID-19 og draga úr neikvæðum áhrifum farsóttarinnar á efnahags- og atvinnulíf í landinu og þjóðarhag allan.

Fordæma ákvæði um innlimun landránsbyggða

Leiðtogar Palestínumanna fordæma stjórnina og segja hana „innlimunarstjórn“ þar sem kveðið er á um það í stjórnarsáttmálanum, að Netanyahu og flokkur hans fái að leggja fram frumvarp um innlimum landránsbyggða Ísraela á Vesturbakkanum.

Þetta yrði í samræmi við friðartillögur Donalds Trumps en andstætt alþjóðalögum og afstöðu meirihluta alþjóðasamfélagsins til landránsbyggðanna.

„Myndun ísraelskrar innlimunarstjórnar þýðir endalok tveggja-ríkja lausnarinnar og niðurbrot á réttindum Palestínumanna,“ skrifar Mohammed Shtayyeh, forsætisráðherra Palestínu á Twitter.

Pólitísk málamiðlun eða refskák?

Gantz hefur jafnan verið andvígur innlimun landránsbyggðanna. Stjórnmálaskýrendur segja ákvæðið um að leggja megi frumvarpið fyrir þingið vera málamiðlun, til þess gerða að friðþægja harðlínumenn í Líkúdflokknum. Ekki sé samasemmerki á milli þess að fá að leggja frumvarpið fram og að fá það samþykkt.

Aðrir velta upp þeim möguleika að með þessu sé Netanyahu að búa í haginn fyrir stjórnarslit um það bil sem Gantz á að taka við embætti. Frumvarpið verði lagt fram og stjórnarsamstarfinu slitið þegar og ef Gantz og Bláhvíta bandalagið neita að veita því brautargengi.

Langar og erfiðar stjórnarmyndunarviðræður

Stjórnarmyndunarviðræður hafa staðið yfir í Ísrael síðastliðna sautján mánuði. Þrívegis hefur þjóðin gengið til þingkosninga og í það stefndi í enn einar á næstu vikum, þar sem fresturinn sem Gantz hafði til að mynda nýja stjórn rann út á miðvikudagskvöld.

Leiðtogarnir heldu þó viðræðum áfram ásamt helstu ráðgjöfum sínum fram eftir aðfaranótt mánudags og hittust að nýju í gær á fundi sem stóð í hálfa aðra klukkustund. Loks var tilkynnt undir kvöld að þeir hefðu undirritað viljayfirlýsingu um að mynda stjórn flokkanna tveggja. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi