Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mynduðu Bárðarbungu með ratsjám eftir skjálftann

21.04.2020 - 06:38
Mynd með færslu
Ratsjármynd af Bárðarbungu. Mynd: Landhelgisgæslan
Einn stærsti skjálfti sem orðið hefur í Bárðarbungu frá eldgosinu í Holuhrauni fyrir nærri sex árum varð í fyrrinótt þegar skjálfti mældist 4,8 að stærð. Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið í gær og myndaði bæði Bárðarbungu og Öskju með ratsjám.

Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði við fréttastofu eftir skjálftann í gær að talið sé að kvika sé að safnast saman í Bárðarbungu. Það geti hins vegar tekið afar langan tíma og meðan það gerist þá þenjist svæðið út.

Sjá einnig: Skjálftinn stærri en talið var og einn stærsti frá gosi

Katlarnir í bungunni sáust vel á ratsjármyndum Gæslunnar í gær. Einnig var tekin ljósmynd af Öskjuvatni, en jarðhiti veldur því að vakir eru á nokkrum stöðum á ísilögðu vatninu að því er segir í færslu Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Ljósmynd af Öskjuvatni frá því í gær.