Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bárðarbunga skalf í nótt

20.04.2020 - 05:30
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Jarðskjálfti, 4,5 að stærð, varð í Bárðarbungu laust fyrir klukkan fjögur í nótt. Upptök skjálftans voru á tæplega 9 kílómetra dýpi, um 7 kílómetra aust-norðaustur af Bárðarbungu. Nokkrir litlir eftirskjálftar fylgdu, sá stærsti þeirra 1,4. Enginn gosórói er sjáanlegur í grennd, segir á heimasíðu Veðurstofunnar. Þar kemur einnig fram að síðast hafi orðið skjálfti af svipaðri stærðargráðu í Bárðarbungu þann 5. janúar síðastliðinn.

Síðdegis í gær varð öllu minni skjálfti í Öræfajökli, 2,4 að stærð, sem átti upptök sín rúman hálfan kílómetra frá Hvannadalshnjúk. Enginn gosórói fylgdi honum að heldur.  

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV