Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fiskeldi: ESA telur ríkið hafa brotið lög

17.04.2020 - 08:20
Innlent · ESA · fiskeldi · Landvernd · Náttúra
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd:
Íslenska ríkið braut reglur EES um mat á umhverfisáhrifum þegar það breytti lögum um fiskeldi í október 2018, samkvæmt bráðabirgðaákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að niðurstaðan sýni gildi þes að haft sé samráð um mikilvægar ákvarðanir um umhverfið.

Frumvarpið var lagt fram og samþykkt sama daginn. Það kveður á um að sjávarútvegsráðherra sé heimilt að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi til tuttugu mánaða til fiskeldisfyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu þarf leyfisveitingin ekki að fara í umhverfismat. Í tilkynningu frá Landvernd segir að almenningur og samtök almennings geti því ekki komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Þá útiloki lögin að leyfisveitinguna sé hægt kæra. Landvernd, veiðifélög og Náttúruverndarsamtök Íslands sendu kvörtun vegna málsins til Eftirlitsstofnunar ESA.

Segir að öll sjónarmið verði að fá að heyrast

„Ég held að þetta sýni svart á hvítu það sem við vorum að tala um þegar þetta átti sér stað, að ef að það á að fara í svona miklar breytingar þá verður að tala almennilega um það sem á að gera. Það verður að vera góð umræða svo að öll sjónarmið fái að koma upp á yfirborðið,“ segir Auður. 

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.  Mynd:

Eftir að lögin voru samþykkt á Alþingi skoraði stjórn Landverndar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að láta af lagasetningunni. „Ef Alþingi og ríkisstjórn hefðu gefið tíma í faglegan undirbúning og færi á umræðu fyrir þessa lagabreytingu hefði líklega verið hægt að koma í veg fyrir setningu þessara ólaga,“ segir í tilkynningu frá Landvernd.  

Eftirlitsstofnun ESA komst að þeirri niðurstöðu að lögin um rekstrarleyfi til fiskeldis brjóti í bága við greinar 2, 4, 9 og 11 í Evróputilskipun um umhverfismat. Það er talið brot að almenningi hafi ekki gefist kostur á að taka þátt í umfjöllun um bráðabirgðaleyfin, né að kæra þau. Sömuleiðis komst Eftirlitsstofnunin að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að brotið hafi verið ákvæði um skyldu til að gilt umhverfismat liggi fyrir þegar veitt eru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir og starfsemi.

Segir að Alþingi verði að fara að lögum

Auður segir að Alþingi verði að virða lög um samráð um framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið. „Það er stór ástæða fyrir því að við erum með þessi lög,“ segir hún. Þegar búið sé að raska náttúrunni sé oft ekki hægt að taka þær gjörðir til baka. „Þess vegna verða þessar ákvarðanir að vera mjög vel ígrundaðar.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir