Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tveir starfsmenn fæðingardeildar í einangrun

16.04.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjórir starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru með kórónuveirusmit. Tveir skjólstæðingar fæðingardeildarinnar hafa þurft að fara í sóttkví vegna samskipta við smitaðan starfsmann. Framkvæmdastjóri lækninga við SAK segir starfsemi sjúkrahússins hafa gengið ótrúlega vel,

Fjórir starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri eru með COVID-19. Ekkert smit er nýtilkomið. Þrír starfsmenn eru í sóttkví. Ekki fæst uppgefið á hvaða deildum sjúkrahússins fólkið starfar til að vernda einkalíf þess, þar sem deildirnar eru fámennar en samkvæmt heimildum fréttastofu greindust tveir starfsmenn á fæðingardeild spítalans með sjúkdóminn.

Þetta staðfestir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga. Hann segir annan starfsmanninn hafa verið í leyfi þegar smit kom upp, hinn hafi verið starfandi og hafi tveir skjólstæðingar þurft að fara í sóttkví. Þeirri sóttkví sé lokið og hvorugur hafi veikst. Þá séu starfsmennirnir um það bil að losna úr einangrun og með endurskipulagningu vakta hafi náðst að halda starfsemi deildarinnar í eðlilegu horfi. Deildin er samstíga fæðingardeild Landspítalans með heimsóknartíma og annað slíkt og Sigurður reiknar með því að það verði áfram. 

Starfsemin gengið ótrúlega vel

Hann segir tvo smitaða liggja inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri núna, einn á gjörgæslu en ætti að losna þaðan fljótlega. Engar vísbendingar séu um að starfsmenn hafi smitast af sjúklingum eða öfugt. Starfsemi sjúkrahússins í faraldrinum hafi gengið ótrúlega vel. Í heildina hafa tíu verið lagðir inn á COVID-legudeild sjúkrahússins, þar af þrír frá Ísafirði. Þrír hafa farið á gjörgæslu það sem af er.

Starfsmenn fluttir til í starfi

Einungis bráðaaðgerðum og þeim aðgerðum sem ekki er talið skynsamlegt að fresta er sinnt. Stór hluti af göngudeildarstarfsemi er látinn bíða. „Það hefur gert það að verkum að við höfum geta flutt starfsmenn til, bæði í störf þar sem fólk hefur farið í sóttkví og eða sinna þessum nýju einingum,“ segir Sigurður og á við legu- og göngudeildir fyrir þá sem eru smitaðir af veirunni. Þá var hluti af sjúklingum á Kristnesi útskrifaður og starfsmenn þar færðir yfir á sjúkrahúsið. „Við í raun fínkemdum húsið og hefur tekist að halda uppi bráðaþjónustu, sjúkraflugi og þeirri þjónustu sem við höfðum ætlað okkur í gegnum þetta.“