Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tólf ný smit greindust í gær - enn fækkar virkum smitum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Tólf greindust með COVID-19 veikina í gær. Veirufræðideild Landspítalans greindi ellefu smit en Íslensk erfðagreining eitt, að því er fram kemur í nýjum tölum á covid.is. Þetta er nokkur fjölgun greindra smita frá deginum áður, þegar 7 smit voru greind. Virkum smitum heldur áfram að fækka.

Tíunda daginn í röð fækkar þeim sem eru með virkt smit, það er að segja þeim sem hafa greinst með veikina og hafa ekki náð sér. Nú eru 587 veikir samkvæmt opinberum tölum en 1.144 hafa náð sér af veikinni. Veikir landsmenn hafa ekki verið færri síðan 22. mars.

58% þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví.

34 eru nú á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af eru 8 á gjörgæslu.

587 manns eru í einangrun og 1.800 í sóttkví. Rúmlega 17.000 manns hafa lokið sóttkví.

Alls er búið að taka 38.204 sýni hér á landi.

Fréttin hefur verið uppfærð.