Reuven Rivlin, forseti Ísraels, fól í morgun þingi landsins að reyna að mynda nýja ríkisstjórn eftir að frestur sem hann hafði gefið Benny Gantz, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, til stjórnarmyndunar rann út án árangurs.
Kosið var í þriðja skipti á innan við ári í Ísrael 2. mars og vill forsetinn reyna að afstýra því að kjósa þurfi enn einu sinni. Hvorki Gantz né Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafa nægan stuðning til að mynda nýja stjórn og kveðst Rivlin forseti vilja gefa þinginu tækifæri til að finna viðunandi lausn.