Suðvestanátt á landinu

16.04.2020 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Veðurstofan spáir suðvestanátt, þremur til tíu metrum á sekúndu, og skúrum, en bjart veður verður um austanvert landið. Seint í kvöld snýst í sunnan átta til fimmtán og rigningu eða súld með köflum, en austanlands verður hægari vindur og léttskýjað. Þannig helst veður fram á morgundaginn. Hiti verður víða þrjú til átta stig í dag. 

Annað kvöld verður nokkuð hvassara norðvestantil á landinu, sunnan þrettán til átján metrar á sekúndu. Hiti verður sex til ellefu stig á morgun.

Mildar suðlægar áttir verða ríkjandi um helgina, væta sunnan- og vestanlands, en yfirleitt bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Austlæg átt um miðja næstu viku, dregur úr úrkomu og áfram milt í veðri.

Vegir eru víðast hvar auðir þótt finna megi hálkubletti á fáeinum stöðum og þá helst á fjallvegum, segir á vef Vegagerðarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi