Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Yfir 10.000 dáin úr COVID-19 í New York borg

15.04.2020 - 01:26
epaselect epa08362590 Paramedics bring a patient into the emergency room at Elmhurst Hospital Center in Queens, New York, USA, on 14 April 2020. The number of confirmed COVID-19 patients continues to rise in the United States as countries around the world try to deal with the coronavirus outbreak.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Bráðaliðar flytja COVID-19 sjúkling á bráðamóttöku Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjöldi dauðsfalla í New York borg, sem rakin eru til COVID-19, er mun meiri en hingað til hefur verið talið og eru þau líklega á ellefta þúsund, samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda í borginni. Í tilkynningu sem heilsugæsla New York sendi frá sér á þriðjudag segir að 3.788 manns hafi að öllum líkindum látist úr COVID-19, til viðbótar þeim 6.589 sem staðfest er að dáið hafi úr sjúkdómnum.

Aldrei greind með COVID-19

Þessar tæplega 3.800 manneskjur voru aldrei greindar með kórónuveirusmit, en eftirgrennslan heilbrigðisyfirvalda í kjölfar dauða þeirra bendi eindregið til þess að hann megi rekja til veirunnar og veikinnar sem hún veldur. Samkvæmt þessum upplýsingum, sem birtar voru klukkan níu á þriðjudagskvöld að íslenskum tíma, eru dauðsföll af völdum COVID-19 því orðin 10.367 í New York borg, þar sem farsóttin geisar nú af meiri þunga en víðast annars staðar.

„Um leið og þessi gögn sýna glöggt þau hörmulegu áhrif sem veiran hefur haft í borginni okkar, þá hjálpa þau okkur líka að meta stærð og umfang faraldursins og ákvarða næstu skref,“ sagði Oxiris, Barbot, yfirmaður heilsugæslu stórborgarinnar þegar hann kynnti niðurstöðurnar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV