
Kanna áhrif sameiningar fimm sveitarfélaga á Suðurlandi
Þetta eru Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, sem um nokkurt skeið hafa átt í óformlegum viðræðum um sameiningu. Verkefnið hefur hlotið yfirskriftina „Sveitarfélagið Suðurland.“
Í tilkynningu frá sveitarfélögunum segir að markmið verkefnishópsins, sem nú hefur verið skipaður, sé að móta tillögu að því hvort hefja skuli formlegar viðræður. Leitað verði svara við ýmsum spurningum varðandi áhrif mögulegrar sameiningar á fjármál, rekstur, stjórnsýslu og þjónustu við íbúa svæðisins. Þannig megi meta hvort hag íbúanna er betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi skipulagi.
Í haust er áformað að boða til íbúafunda í hverju sveitarfélagi fyrir sig, þar sem leitað verður sjónarmiða íbúanna. Í framhaldi af því verður gerð skoðanakönnun. Gert er ráð fyrir að tillaga verkefnishópsins liggi fyrir í lok október. Verði ákveðið að hefja formlegar sameiningarviðræður munu íbúar ganga til kosninga um sameiningartillögu á árinu 2021.