Talsvert umferðaröngþveiti myndaðist víða í Moskvu í morgun þegar reglur um nýtt staðsetningarforrit stjórnvalda í Rússlandi tóku gildi.
Öllum íbúum Moskvu og nágrennis, sem eru eldri en 14 ára, er skylt að hlaða niður staðsetningarforriti ef þeir vilja ferðast um borgina. Það er sama hvort íbúar nota einkabíl eða almenningssamgöngur.
Í snjallforritinu geta löggæslumenn séð hvort viðkomandi hafi leyfi fyrir ferðum sínum. Um helmingur kórónuveirusmita í Rússlandi hefur greinst í Moskvu og vilja stjórnvöld með þessu reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.
Aðgangur stjórnvalda að persónuupplýsingum íbúa Moskvu í gegnum smáforritið hefur verið gagnrýndur.