Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

2000 Vestfirðingar prófaðir í vikunni

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Skimun Íslenskrar erfðagreiningar hófst á norðanverðum Vestfjörðum í morgun. Óvíst er hvort hægt verði að aflétta samkomubanni í fjórðungnum á sama tíma og annars staðar á landinu.

Sýnataka var aukin í dag og verða 1500 prófaðir á Ísafirði og í Bolungarvík. Með þeim 500 sýnum sem þegar hafa verið tekin verður því búið að prófa nálega helming allra íbúa norðanverðra Vestfjarða í lok vikunnar. Skimun fer því næst fram á suðurfjörðunum eftir helgi.

„Þetta er mjög mikilvægt og kemur á góðum tíma núna þegar við erum á niðurleið. Svo þá sé algjörlega hægt að slökkva alla elda sem gætu verið í einhverjum afkimum,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Tvö tilfelli í íbúðakjarna eldri borgara í Bolungarvík

Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík eru sex smitaðir og fjórir í sóttkví. Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum er nú verið að taka skýrslur vegna máls konunnar sem villti þar á sér heimildir sem bakvörður.

Tvö tilfelli hafa greinst hjá systkinum sem búa í íbúðakjarnanum Árborg, sem er í sömu byggingu og Berg. í kjarnanum eru sautján íbúðir fyrir eldri borgara. Allir sem þar búa fóru í sóttkví í gær í kjölfar þess að tilfellin greindust.

Gylfi segir smitrakningu ganga vel.

„Smitrakningarteymið bæði í Reykjavík og sérstaklega hér á Ísafirði og í Bolungarvík hefur náð að rekja sig aftur á bak í tíma til að átta sig á hvernig þetta hefur allt gerst.“

Vilja ekki þurfa að herða aðgerðir á ný

Hertar aðgerðir eru enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og verða það til 26. apríl hið minnsta. Gylfi segir ekki ljóst hvort unnt verði að létta á takmörkunum þann 4. maí samhliða landinu öllu.

„Við erum líka í samtali við bæði sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra og þeirra skoðun er sú að hafa takmarkanir aðeins lengur til að spara sér að þurfa að setja þær aftur ef hópsýking blossar upp aftur,“ segir Gylfi.