Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Sannarlega stórt skref í rétta átt“

Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir mikið gleðiefni að slakað verði á samkomubanni 4. maí. Það skipti miklu máli fyrir atvinnulífið, sér í lagi fyrirtæki sem hafa þurft að loka sínum rekstri tímabundið.

„Það er mjög jákvætt að við séum kominn á þann stað að það sé verið að tilkynna um tilslakanir. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst hvernig gangurinn hefur verið hingað til,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hann segir samkomutakmarkanir hafa haft mikil áhrif á fyrirtækin í landinu, einkum þau sem veita persónulega þjónustu.  Það sé mikilvægt að koma þeirra rekstri aftur í gang.

„Ég tala nú ekki um þá sem hafa þuft að loka sínum fyrirtækjum. Nuddara, tannlækna, hárgreiðslufólk og fleiri. Þó það sé of snemmt að hrósa happi er þetta sannarlega stórt skref í rétta átt,“ segir hann. 

Þó að nú sé ljóst að slakað verði á samkomubanni segir Halldór Benjamín að áfram verði uppi mikil óvissa fyrir atvinnulífið. Hann hefði viljað sjá skýrari tímaramma á aðgerðum stjórnvalda svo hjól atvinnulífsins fari aftur að snúast.

„Ég hefði viljað sjá tímalínu þar sem tiltekið væri hvenær von er á næstu ákvörðunum. En á sama tíma átta ég mig á að það er erfitt að gera slíkar áætlanir. Það þarf auðvitað meira til en hefur verið kynnt og frekari stuðning hins opinbera til að styðja við störfin í landinu.“

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV