Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu sektir fyrir brot á samkomubanni í vinnslu

12.04.2020 - 18:48
Mynd: RÚV / RÚV
Fyrstu sektirnar fyrir brot á samkomubanni eru í vinnslu, segir yfirlögregluþjónn. Hann á von á að tillögur um afléttingu samkomubanns verði kunngerðar á fimmtudaginn.  nn fækkar nýjum kórónuveirusmitum. Þau voru tólf í gær. Lögreglan undibýr nú nú að leggja á sektir að beita sektum fyrir brot á samkomubanni. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Víðir Reynisson.

Nokkrir tengdir brotinu

Lögreglan hefur haft vakandi auga með því að reglur um samkomubann séu virtar. Fjölmargar ábendingar hafa borist frá almenningi til dæmis í gegnum Facebooksíðu Almannavarna. 

„Þeim hefur heldur fækkað um helgina frá því sem verið hefur undanfarið. Og það er kannski bara af því að fólk er rólegra og minna á ferðinni þ.a. það minna vart við eitthvað ef það er í gangi,“ segir Víðir Reynisson.

Hafið þið þurft að beita sektarheimildum?

„Það eru mál í gangi sem mun væntanlega ljúka með sektargreiðslum, já.“

Hvers konar brot eru það?

„Það eru brot á samkomubanni. Þetta er sem sagt starfsemi, sem átti að liggja niðri en var farið af stað með, og eftir ábendingar þá var því lokað aftur en því mun væntanlega ljúka með einhverjum sektargreiðslum.“ 

Er þetta eitt tilfelli eða fleiri?

„Þetta er alla vega eitt tilfelli, sem ég veit um, sem nokkrir aðilar tengjast.“

Aflétting líklega kynnt á fimmtudaginn

Páskahelgin hefur gengið vel, minni umferð hefur mælst út af höfuðborgarsvæðinu, útköll hafa verið fá og lögreglan á Suðurlandi, þar sem eru þúsundir sumarbúastaða, hefur verið með eftirlit: 

„Þeir segja að það sé talsvert af fólki í sumarbústaðabyggðunum þar en þetta hefur gengið stórslysalaust og það var nú það sem við vildum fyrst og fremst.“

Eins og fram hefur komið verður ljóst eftir páska hvað sóttvarnalæknir leggur til um afléttingu samkombannsins: 

„Ég á von á því að það verði kynnt einhvern tíma seinna í þessari viku. Á fimmtudaginn eða eitthvað svoleiðis,“ segir Víðir.

Ekki eins fá smit í meira en mánuð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson - RÚV
Aðeins tólf smit greindust í gær.

 

Aðeins tólf greindust með kórónuveirusmit í gær. Fara þarf aftur til 9. mars til að finna jafnfá smit þegar þau voru níu talsins. Þó verður að taka með í reikninginn núna að aðeins voru 618 sýni tekin í gær. Innan við sex prósent sýna á veirufræðideild voru jákvæð og innan við eitt prósent hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Nú eru 804 í einangrun og 889 hafa náð bata. Samtals liggja 39 á sjúkrahúsi með COVID-smit. Sjö eru á gjörgæslu á Landspítalanum og tveir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar er enginn í öndunarvél en fjórir á Landspítalanum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson - RÚV
Alma D. Möller.

Hægt að leita sér hjálpar í vanlíðan

Samkomubannið reynir á alla: 

„Við sjáum að kvíði, áhyggjur, ótti, einmanaleiki og ofbeldi eru allt fylgifiskar þessa faraldurs,“ segir Alma D. Möller landlæknir.

Á síðunni covid.is undir hnappnum Líðan okkar má finna leiðbeiningar um hvernig takast eigi á við erfiðleika og bent er á hvert er hægt að leita eins og til dæmis í hjálparsímann 1717. Sem dæmi um ástandið er að nú er hringt meira en áður í neyðarsíma AA - samtakanna. Nú eru 550 á biðlista fyrir að komast inn á sjúkrahúsið Vog. Færri eru teknir þar inn en vanalega en önnur meðferðarþjónusta SÁÁ er óbreytt. Landlæknir segir að hjá embættinu sé á teikniborðinu hvernig hægt sé að fylgjast með því hvaða þjónusta sé veitt og hvaða ekki en tölur liggi ekki fyrir. 

„Ég legg samt áherslu á þessa ráðgjöf og það er heimilt að halda AA-fundi með þessum takmörkunum sem gilda og við höfum lagt bara mikla áherslu á að heilsugæslan og aðrir sinni þessari nauðsynlegu þjónustu,“ segir Alma.