Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill að allir hlýði Víði og verði heima um páskana

08.04.2020 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook-síða Arnars Richardss
Arnar Richardsson varð mjög veikur af COVID-19. Hann var veikur næstum því mánuð en nú er honum að verða batnað. Arnar vill að allir hlýði Víði og verði heima um páskana. „Hlýðum Víði, þetta er dauðans alvara,“ segir hann á Facebook.

Arnar segir að hann hafi verið duglegur að fara út að hlaupa áður en hann veiktist. Hann var því í mjög góðu formi. Hann var greindur með sjúkdóminn 22. mars. Þá var hann búinn að vera með hósta í marga daga. Arnar er með asma og hélt fyrst að hóstinn tengdist honum.

Ákvað sjálfur að fara í sóttkví

Arnar býr í Vestmannaeyjum. Þar hafa 103 verið greindir með kórónuveiruna en 719 farið í sóttkví. Arnar ákvað sjálfur að fara í sóttkví 13. mars. Hann hélt sig að mestu heima og vonaði að hann myndi sleppa við að smitast af veirunni. Það var ekki nóg. Arnar smitaðist. Aðrir í fjölskyldunni smituðust líka en enginn varð eins veikur og hann.

Mynd með færslu
Arnar Richardsson. Mynd: Aðsend mynd

Arnar lýsti því á Facebook hvernig honum leið á meðan hann var veikur. Hann segir að hann hafi hóstað mjög mikið og orðið móður og verið mjög kraftlaus. Honum fannst erfitt að tala. Best var að liggja, þegja og reyna að sofa sem mest. Hann fékk lungnabólgu og var sendur með sjúkraflugvél á Landspítalann.

Það var skrýtið að vera á Landspítalanum. Arnar segist finna til með starfsfólkinu þar. Það vinnur við erfiðar aðstæður og þarf að vera í miklum hlífðar-fatnaði. Hann er mjög þakklátur fólkinu á spítalanum sem sýndi honum mikinn kærleika og hugulsemi.

Hver sem er getur fengið kórónuveiruna

Arnar fór aftur með sjúkraflugvél til Vestmannaeyja í gær. Hann varð að vera í sérstöku hylki fyrir sjúklinga með COVID-19. Hann fann samt ekki fyrir neinni innilokunar-kennd í hylkinu.

Arnar er núna í íbúð nálægt heimili sínu. Hann vill vera annars staðar en heima svo að fjölskyldan hans þurfi ekki að vera lengur í einangrun. Hann hvetur fólk til að fara mjög varlega. Allir ættu að hlýða Almannavörnum og Víði og ekki vera þar sem er margt fólk. „Þetta getur komið fyrir hvern sem er.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir