Segir kærkomið að fá bakverði á hjúkrunarheimilið

08.04.2020 - 21:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjóla Bjarnadóttir, deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, segist ekki eiga til orð til að lýsa ástandinu á heimilinu. Hún var að vinna alla helgina án þess að fara heim og segir liðsauka bakvarða á mánudag kærkominn. Hún hrósar samhentu átaki við að koma upp sérstakri deild á heimilinu þar sem hægt sé að annast sjúklinga með COVID-19 smit.

Hér má horfa á Einar Þorsteinsson ræða við FJólu Bjarnadóttur í Kastljósi í kvöld.

Fjögur smit komu upp hjá heimilisfólki á Bergi í liðinni viku og hjá sex starfsmönnum. Í framhaldinu fóru allir á heimilinu í sóttkví eða einangrun. Fjóla segir ástandið hörmulegt. „Einhvern veginn hefur það samt þegar maður lendir í svona aðstæðum þá finnur maður líka hvað samstarfsfólkið er ótrúlega gott og tryggt. Yfirstjórnin og COVID-teymið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur á tveimur sólarhringum útbúið hérna inni á hjúkrunarheimilinu deild til að annast sjúklinga sem greinst hafa með Covid-smit.“

Einn starfsmaður eftir 

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti bakverði; tíu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vestur á mánudag. Fjóla var spurð að því í Kastljósi hvort vaktirnar hafi ekki verið orðnar langar hjá starfsfólkinu á hjúkrunarheimilinu áður en bakverðirnir mættu á staðinn. „Það var þannig að fyrir viku þá fara þrír starfsmenn út (í sóttkví), daginn eftir eru níu til viðbótar farnir og svo í gær þá stóð einn starfsmaður eftir af öllum hópnum,“ segir Fjóla sem vann alla helgina án þess að fara heim. 

„Það er bara einhvern veginn þannig að þegar á reynir þá voru þeir sem voru eftir í húsinu, þessir fimm starfsmenn, frá því á föstudag, að mig minnir, reyndum við bara að gera gott úr þessu og vorum með bedda og svona og skiptumst á að hvíla okkur og vorum að reyna að tína inn bakverði. Á mánudeginum fengum við tíu bakverði hjúkrunarfræðinga sem komu til okkar og sjúkraliða og það var kærkomið og þá náðum við að koma skikki almennilega á þetta.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós