Segir ákvörðunina hafa borið brátt að

08.04.2020 - 09:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorsteinn Víglundsson, sem hefur sagt af sér þingmennsku til að taka að sér verkefni á vettvangi atvinnulífsins, segir að ákvörðunin hafi borið brátt að og viðurkennir að hún hafi komið samstarfsmönnum hans í flokknum í opna skjöldu. Hann hræðist þó ekki þær áskoranir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir á tímum kórónuveirufaraldursins.

Þótt Þorsteinn hafi aðeins setið á þingi í fjögur ár hefur hann tvívegis náð kjöri sem þingmaður Reykvíkinga og setið sem ráðherra í skammlífustu ríkisstjórn Íslandssögunnar. 

Þorsteinn segist í samtali við fréttastofu hafa fengið tilboð um mjög spennandi starf sem verði tilkynnt um síðar í dag. Eftir vandlega íhugun hafi hann ákveðið að snúa aftur út í atvinnulífið enda hafi hann alið aldur sinn þar áður en hann settist á þing. 

Staðan í atvinnulífinu á tímum kórónuveirufaraldursins er vægast sagt snúin en Þorsteinn segist ekki hræðast það. „Mér hefur alltaf fundist langskemmtilegast að takast á við stór verkefni og það eru þannig tímar núna. Það verða töluverðir erfiðleikar í atvinnulífinu á þessu ári og eitthvað lengur. Það verður bara verkefni sem þarf að takast á við og það er aldrei skemmtilegra en þegar maður fær dálitlar áskoranir í fangið.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara, tekur sæti Þorsteins á þingi. Hann viðurkennir að ákvörðun hans hafi komið samherjum hans í Viðreisn á óvart. „Þetta kom þeim eðli málsins samkvæmt í opna skjöldu enda átti þetta sér skamman aðdraganda. Það er auðvitað leiðinlegt að kveðja góða samherja og vini með svona skjótum hætti en ég veit að það kemur maður í manns stað.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi