Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framtíð Bandaríkjahers í Írak rædd í sumar

08.04.2020 - 08:11
epa08301773 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the coronavirus COVID-19 pandemic, which he referred to as the 'Wuhan virus', at the State Department in Washington, DC, USA, 17 March 2020. Efforts to contain the pandemic have caused travel disruptions, sporting event cancellations, runs on cleaning supplies and food and other inconveniences.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjamenn og Írakar ætla í júní að hefja viðræður um framtíð bandarískra hersveita í Írak. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu í gærkvöld.

Reiði í garð Bandaríkjanna hefur farið vaxandi í Írak síðan leiðtogi íranska Byltingarvarðarins lét lífið í flugskeytaárás Bandaríkjamanna við flugvöllinn í Bagdad í byrjun árs.

Tveimur dögum eftir árásina samþykkti meirihluti írakska þingsins ályktun þar sem hvatt var til að hersveitum Bandaríkjamanna yrði vísað úr landi.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur neitað að kalla liðið heim frá Írak og hótað Írökum refsiaðgerðum láti þeir verða af hótunum um brottvísun. Um 5.200 bandarískir hermenn eru í Írak. 

Pompeo sagði í gærkvöld að í ljósi COVID-19 faraldursins og fyrirsjánlega minni olíutekna Íraka væri mikilvægt fyrir ríkin að ná samkomulagi til að treysta þann árangur sem hefði náðst í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu og við að tryggja stöðugleika í Írak.