Tölvuleikir eru áhugamál sem er allt í lagi að stunda

Mynd: RÚV / RÚV

Tölvuleikir eru áhugamál sem er allt í lagi að stunda

07.04.2020 - 16:52
Rafíþróttir eru í mikilli sókn á þessum tímum alls staðar í heiminum og Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður rafíþróttasambands Íslands, segir þessa grósku sannarlega vera til staðar á Íslandi.

Fjölmörg íslensk íþróttafélög eru komin með rafíþróttadeildir innan sinna félaga og fjölmörg lið farin að keppa í leikjum á borð við FIFA og Counterstrike. „Það hefur auðvitað orðin ákveðin sprenging undanfarið og Nascar og FIFA til dæmis verið búin að spila keppnir,“ segir Ólafur en ítalska og spænska deildin í fótbolta hafa sömuleiðis verið að láta fulltrúa sinna liða keppa í e-fótbolta á móti hvor öðrum. 

Ólafur segir að á næstu árum muni stafræn keppni auðvitað halda áfram að verða stærri og stærri á næstu árum. 

„Það sem Covid er að gera er að svipta hulunni af tölvuleikjum sem áhugamál sem er bara allt í lagi að stunda,“ bætir hann við. 

WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunin) hefur til að mynda gefið út yfirlýsingu um að það að spila tölvuleiki heima hjá sér sé eitt það besta sem maður geti gert. Tölvuleikir bjóði sömuleiðis upp á það að eiga samskipti við vini sína þannig félagslegi hluturinn er líka stór. „Við getum nefnilega alveg tengst fólki í gegnum netið.“

Ólafur Hrafn var gestur í Núllstillingunni í dag en viðtalið við hann í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Núllstillingin er á dagskrá alla virka daga milli klukkan 14 og 16 á RÚV 2 og ruv.is.