Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lítil sem engin röskun orðið á vöruflutningum

07.04.2020 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Eimskip og Samskip hafa gert tímabundnar breytingar á leiðakerfum sínum og fækkað skipum vegna Covid-19. Icelandair Cargo nýtir farþegaflug til vöruflutninga. Lítil röskun hefur þó orðið á flutningum til og frá landinu.

Tómlegar farþegavélar nýttar til flutninga 

Icelandair hefur fellt niður flug til nánast allra áfangastaða sinna en þó er flogið reglulega til Boston og Lundúna. Vélarnar eru þó oft næstum tómar enda fáir á faraldsfæti um þessar mundir. Gunnar Már Sigurfinsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, segir að farþegavélarnar séu vel nýttar til vöruflutninga þessa daganna. 

„Með þessu hefur okkur tekist að halda 70-80 prósent flutninga í kerfinu. Við erum að nýta allar leiðir sem við höfum. Við setjum allt upp í 30 tonn á farþegavélarnar og til viðbótar erum við með fraktvélar sem fara 3-4 sinnum í viku til Bandaríkjanna og einu sinni á dag til Belgíu,“ segir Gunnar Már. 

Sérstök áhersla er lögð á að halda leiðum opnum til að útflutningur með fisk raskist ekki. 

„Við nýtum allt plássið til að koma fiski á markað. Svo komum við auðvitað með vörur, matvæli, grænmeti og lækningavörur til baka,“ segir hann.  

Breytingar á leiðakerfi og fækkun skipa 

Til að bregðast við fjárhagslegum afleiðingum Covid-19 faraldursins hefur Eimskip hefur fækkað um tvö skip. Skipin eru nú átta en voru tíu. 

„Þetta voru skip sem við vorum búin að selja og við erum í raun og veru bara að skila þeim fyrr en áætlað var,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, samskiptastjóri Eimskips. Fyrirtækið gerði nú um mánaðarmótin breytingar á leiðakerfi sínu til að bregðast við fjárhagslegu tjóni vegna Covid-19. Edda segir þó að röskun á vöruflutningum sé lítil sem engin.

Það sama er uppi á tengingnum hjá Samskipum. Þar hefur verið  fækkað um eitt vöruflutningaskip að til að lækka fastan rekstarkostnað. Breytingar á leiðakerfi fyrirtækisins tóku gildi í gær en þær ráðstafanir eru einnig tímabundnar, að sögn Þórunnar Ingu Inggjaldsdóttur, samskiptastjóra Samskipa. Þjónustan sé áfram sú sama. 

„Við erum að ráðast í þessar breytingarnar núna vegna óvissu sem uppi er í kjölfar Covid-19. Þær verða svo teknar til endurskoðunar þegar aðstæður leyfa,“ segir Þórunn.