Atli og Snærós ræddu við Gauta í gegnum Skype því hann er í sóttkví í Núllstillingunni í dag. Hann er á áttunda degi í sóttkví sem hann segir vissulega vera erfitt en á sama tíma ágætt því nú hafi hann tíma til þess að vera með fjölskyldunni.
Undanfarið hefur hann verið að vinna í nýrri plötu sem mun koma fljótlega út. Platan heitir Bleikt ský en samnefnt lag og myndband kemur út á morgun. Í kvöld verður myndbandið hins vegar frumsýnt í bílabíó.
„Við hugsuðum vel og lengi hvernig við gætum haldið frumsýningarpartý á meðan það er samkomubann af því við ætlum ekki að vera hálfvitar heldur,“ segir Gauti.
Hlynur Helgi sem er leikstjórinn á myndbandinu ásamt Gauta kom þá með þá hugmynd að frumsýna myndbandið fyrir bílabíó sem verður í kvöld á efra bílaplaninu hjá Smáralind. Bílabíóið átti að vera um helgina en var frestað vegna veðurs, „Guð var að bjarga mér þar“ segir Gauti.